7. flokkur karla vann B riðilinn um helgina !

Önnur umferð íslandsmótsins í körfubolta hjá 7. flokk karla var spiluð helgina 19-20 nóvember. Skallagrímsmenn voru að sjálfsögðu mættir til leiks en þeir léku í B riðli sem var spilaður í Seljaskóla í Reykjavík. Fyrsti leikur okkar manna á laugardag var gegn heimamönnum í ÍR og úr varð hörku leikur, lokatölur urðu 35-30 Skallagrím í vil.

Í öðrum leiknum á laugardag voru KR-ingar andstæðingar Skallagríms, okkar strákar spiluðu fanta vörn í leiknum og uppskáru nokkuð þægilegan sigur 38-21.
Í þriðja leik, sem fór fram á sunnudagsmorgun, mætti Skallagrímur liði Grindavíkur, í þessum leik virtist vörnin aðeins gleymast hjá báðum liðum en á sama tími virtist sóknarleikurinn ganga betur og fengu bæði lið marga góða sénsa, að lokum voru það Skallagrímspiltar sem stóðu uppi sem sigurvegarar 50-40 í skemmtilegum leik.
Í fjórða og síðasta leik umferðarinnar mættu Skallastrákar svo liði Hauka í hreinum úrslitaleik um hvort liðið ynni riðilinn og á sama tími myndi tryggja sér veru í A riðli í næstu umferð. Það virtist vera þónokkur taugaspenna í sóknarleik beggja liða í fyrsta leikhluta en að honum loknum var staðan jöfn 6-6. Eftir það gáfu Skallar í botn í vörninni og litu aldrei aftur. Lokatölur urðu 30-15 Skallagrím í vil og tryggðu þeir sér þar með sæti í Ariðli í næstu umferð, já, efsta riðli (deild) 🙂
Það var fyrst og fremst þétt og sterk liðsheild sem skilaði þessari flottu frammistöðu okkar manna um helgina og sést greinilega að þessir strákar eru samviskusamir að æfa og er óhætt að segja að framtíðin sé björt. 4 sigrar og ekkert tap er flottur árangur. Liðið skipa Alexander – Andri – Aron – Arnar – Halldór – Jónas – Vilhjálmur.
Þjálfari er Finnur Jónsson og honum til aðstoðar er Skúli Guðmundsson.