Glæsilegur árangur stúlkanna á móti í Grindavík

Stúlkur úr minni bolta 11 ára fóru á Íslandsmót um helgina. Keppt var í Grindavík en mótið er ætlað fyrir stúlkur úr 5. og 6. bekk.
Stúlkurnar sem kepptu fyrir Skallagrím eru allar úr 5. bekk og eru því á yngra ári. Fyrri leikurinn á laugardaginn var gegn KR stúlkum.
Skallagrímsstúlkur komu grimmar til leiks og gjörsamlega völtuðu yfir þær svartröndóttu. Leikurinn endaði 28-8.
Seinni leikurin á laugardaginn var gegn Stjörnunni úr Garðarbæ og þann leik sigruðu okkar stúlkur með 30 stigum gegn 10 stigum Stjörnunnar. Að loknum þeim leik horfði liðið saman á landsleik Íslands gegn Slóvakíu og um nóttina var gist í skólastofu í Grindavík. Skallagrímsstúlkur komu grimmar til leiks í dag og það sama var uppi á teningnum. Þær byrjuðu á sigri gegn liði FSU frá Selfossi. Í þessum leik spiluðu stúlkurnar gríðarlega sterka vörn og FSU skoraði einungis tvær körfur í leiknum. Leikurinn endaði með 24-4 sigri Skallagríms. Lokaleikurinn í dag var aftur gegn KR stúlkum vegna þess að lið Vestri forfallaðist vegna veðurs. KR stúlkur komu ákveðnar til leiks og ætluðu að hefna fyrir fyrri leikinn en okkar stúlkurnar héldu uppteknum hætti og með gríðarlega föstum varnarleik í bland við léttan sóknarleik þá lönduðu þær sigri 20-10. Það er óhætt að segja að framtíðin sé björt fyrir þessar stúlkur sem eru á yngra ári í sínum riðli. Þær sigruðu alla leikina um helgina og unnu C-riðil og munu því keppa í B-riðli á næsta Íslandsmóti sem haldið verður eftir áramótin. Stúlkurnar í liðinu um helginda voru Aðalheiður, Alda, Díana, Oddný, Sara Björk, Valborg og Viktoría. Söru Björk vantar á myndirnar þar sem hún var veik seinni daginn. Þjálfarar liðsins í vetur eru Guðrún Óska Ámundadóttir sem stýrði liðinu um helgina og Sigrún Sjöfn Ámundadóttir sem var erlendis að spila með landsliðinu gegn Slóvakíu.