Mikilvægur sigur í Þorlákshöfn

Skallagrímur fór bæði stigin heim í Borgarnes eftir tveggja stiga sigur, 74-76, á Þór í Þorlákshöfn í 10. umferð Domino’s deildar karla í gærkveldi

Með sigrinum komst Skallagrímur upp í 5. sæti deildarinnar en Þór Þ., sem er búinn að tapa fimm leikjum í röð, er í því áttunda.

Borgnesingar voru í bílstjórasætinu nánast allan leikinn. Skallagrímur leiddi með fimm stigum í hálfleik og fyrir fjórða og síðasta leikhlutann var staðan 55-63, gestunum í vil.

Þórsarar komu með sterkt áhlaup í 4. leikhluta og náðu fjögurra stiga forystu, 73-69, þegar tvær mínútur voru eftir.

En Borgnesingar sýndu styrk á lokakaflanum og ekki síst ungu leikmennirnir í liðinu. Davíð Ágústsson jafnaði metin í 73-73 með risastórum þristi og Kristófer Gíslason skoraði svo sigurkörfuna. Lokatölur 74-76, Skallagrími í vil.