Sigur í Njarðvík í síðasta leik ársins hjá stelpunum

Umfjöllun frá Karfan.is

Nýliðar Skallagríms munu verma 2.-3. sæti Domino´s-deildar kvenna yfir jólahátíðina eftir öruggan 72-78 sigur á Njarðvík í nýliðaslag dagsins. Lokatölurnar greina ekki frá yfirburðum Skallagríms í leiknum sem voru þónokkrir en Njarðvíkingar gerðu vel á lokasprettinum að vinna niður forskotið en Skallagrímur lagði snemma grunninn að sigrinum í dag.

Gestirnir úr Borgarnesi kveiktu á túrbó-vélinni sinni í stöðunni 6-6. Þarna í fyrstu andartökum leiksins var ekki ósvipuð holning á þessum tveimur nýliðum í deildinni. Borgnesingar sýndu þó fljótt hvaða gæði er að finna innan sinna raða með því að herða tökin í vörninni, Carmen fékk lítinn frið í liði Njarðvíkinga og Skallagrímskonur voru ekki að neinu dútli heldur keyrðu vel í bakið á gestgjöfunum og staðan 11-21 eftir fyrsta leikhluta.
Hið sama var uppi á teningnum í öðrum leikhluta, Njarðvíkingar í stökustu vandræðum gegn vörn gestanna og hefðu þurft að passa betur upp á boltann. Ef Borgnesingar voru ekki að setja körfur í bakið á Njarðvík þá var liðið að nýta skotin sín vel og öll orkan og ákefðin var þeirra megin. Skallagrímur leiddi 26-47 í hálfleik þar sem Carmen Tyson-Thomas var með 15 stig í liði Njarðvíkur en lala með 15 stig í liði Skallagríms.
Heimakonur í Njarðvík mættu með mun meiri ákefð inn í síðari hálfleik og leiddu 13-10 í þriðja leikhluta eftir sex mínútna leik. Vörnin betri og Skallagrímskonur kannski komnar smávegis á hælana með 21 stiga forystu í hálfleiknum. Njarðvíkingar unnu þriðja leikhluta 21-18 en staðan 47-65 fyrir fjórða og síðasta leikhluta og í raun skrýtið að Njarðvík mæti ekki með jafn mikla grimmd inn í leikinn í stað þess að sýna vígtennurnar þegar þarf að vinna sig upp úr holu.
Í fjórða leikhluta náðu Njarðvíkingar að saxa áfram á forskotið, reyndar sleit Tillman gestina frá í 53-73 með þremur þristum í röð en Njarðvík var mun sterkari á lokamínútum leiksins og unnu þær 19-5 og lokatölur því 72-78 fyrir Skallagrím. Carmen Tyson-Thomas var með 36 stig í liði Njarðvíkinga en Tavelyn Tillman var með 31 stig í liði Skallagríms. Flottur sigur Borgnesinga á meðan Njarðvíkingar hefðu þurft að mæta jafn ákveðnir til leiks og þeir mættu til síðari hálfleiks.
Karfan.is ræddi við Fanney Lind Thomas í leikslok en hún gekk tiltölulega nýverið í raðir Skallagríms og skoraði 14 stig fyrir Borgnesinga í sigrinum í dag. Fanney segist kunna mjög vel við sig í herbúðum Skallagríms.
„Það er hugsað vel um mann og allar vinkonurnar mínar eru í liðinu og þessi nýliðahópur er sterkur. Mér finnst liðið þó eiga mikið inni. Í dag sýndum við að þegar við spilum sem lið eigum við svona fyrri hálfleik og byggjum upp góða forystu en þegar við förum í svona sólóverkefni þá gengur þetta ekki. Við getum ekki leyft okkur að spila svona í síðari hálfleik gegn liði eins og Njarðvík sem hefur sýnt fullt af góðum hlutum í vetur,“ sagði Fanney en við spurðum hana að því þar sem nýliðahópur Skallagríms væri feykilega sterkur hvort í lagi væri að gera kröfur á klúbbinn að vinna titil.
„Það eru ekki oft svona sterkir nýliðar á ferðinni, það sést ekki oft, við erum með mikla reynslu í liðinu svo það er í lagi að gera kröfur á að liðið vinni titil sé litið til hópsins.“nonni@karfan.is