Frá aðalfundi körfuknattleiksdeildar

Þriðjudagskvöldið 20. mars s.l. var aðalfundur körfuknattleiksdeildarinnar haldinn. Var þar farið yfir starf og rekstur deildarinnar á árinu 2017 og stöðu mála almennt hjá deildinni. Mjög góð mæting var á fundinn og umræður góðar, gestur fundarins var Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ.

Kosið var í stjórnir og ráð á fundinum og er stjórn deildarinnar þannig skipuð að loknum fundi:
Yngri flokka ráð: Kristinn Sigmundsson, Einar Árni Pálsson og Pálmi Þór Sævarsson.
M.fl.ráð kvenna: Ragnheiður Guðmundsdóttir, Sigrún Reynisdóttir, Smári Valsson, Kristín Jónsdóttir og Kristín Frímannsdóttir.
M.fl.ráð karla: Arnar Víðir Jónsson, Skúli Guðmundsson, Eðvarð Jón Sveinsson, Einar Örn Arnarsson og Þorsteinn Erlendsson.
Aðalstjórn: Eðvar Ólafur Traustason formaður, Ólafur K. Kristjánsson gjaldkeri og Flosi Sigurðsson ritari.
Skoðunarmenn reikninga: Eiríkur Ólafsson og Ingi Tryggvason.

Þau sem stigu til hliðar í stjórnum og ráðum á fundinum eru:
Íris Gunnarsdóttir og Kristín Amelía Þuríðardóttir hætta í yngri flokka ráði.
Eiríkur Theódórsson og Halldór Óli Gunnarsson hættu í m.fl.ráði karla á miðju tímabili og Flosi Sigurðsson skiptir um vettvang innan starfsins.
Ámundi Sigurðsson, Ásmundur Einar Daðason og Gauti Sigurgeirsson hætta í m.fl.ráði kvenna.
Ómar Örn Ragnarsson og Bjarki Þorsteinsson hætta í aðalstjórn.

Er þessu fólki þakkað þeirra framlag til starfsins og um leið og nýju stjórnarfólki sem og þeim sem halda áfram er óskað velfarnaðar í því kraftmikla og gefandi starfi sem unnið er á þessum vettvangi !

Hér á eftir er skýrsla stjórnar vegna rekstrarársins 2017:

Ársskýrsla starfsársins 2017

Stjórn körfuknattleiksdeildar var þannig skipuð að loknum aðalfundi vorið 2017:

Eftir breytingu á stjórnskipulagi deildarinnar sem gerð var vorið 2016 er skipulag á stjórn deildarinnar þannig að kosin er þriggja manna aðalstjórn og síðan kosið í þrjú ráð sem eru yngri flokka ráð, meistaraflokksráð kvenna og meistaraflokksráð karla, þessar stjórnir og ráð eru þannig skipuð:

Aðalstjórn:  Bjarki Þorsteinsson formaður, Ólafur K. Kristjánsson gjaldkeri og Ómar Örn Ragnarsson ritari.

Yngri flokka ráð: Kristinn Sigmundsson formaður, Íris Gunnarsdóttir, Kristín Amelía Þuríðardóttir, Eðvar Ólafur Traustason og Einar Árni Pálsson.

M.fl.ráð kvenna: Ámundi Sigurðsson formaður, Ragnheiður Guðmundsdóttir, Sigrún Reynisdóttir, Kristín Jónsdóttir,  Ásmundur Einar Daðason og Gauti Sigurgeirsson.

M.fl.ráð karla: Arnar Víðir Jónsson og Flosi Sigurðsson eru í forsvari,  Þorsteinn Guðmundur Erlendsson, Skúli Guðmundsson, Halldór Óli Gunnarsson og Eiríkur Theódórsson.

Hér á eftir fylgir greinargerð um starf síðasta árs og markmið næsta tímabils.

Innan Körfuknattleiksdeildarinnar starfar fjöldi manns bæði við leik og störf. Um er að ræða áhugamannasamtök þar sem unnið er í sjálfboðavinnu fyrir utan að þjálfarar eru ráðnir til starfa.  Á undanförnum árum hefur iðkendum fjölgað mikið og eru iðkendur nú tæplega 200, frá 6 ára aldri og langleiðina að sjötugu, þetta viljum við þakka metnaðarfullum áherslum í starfsemi deildarinnar og ráðningu yfirþjálfara yngriflokka sem heldur utanum og samræmir allt starf yngriflokka deildarinnar.  Körfuknattleiksdeild Skallagríms er fyrirmyndarfélag ÍSÍ frá því árið 2015.

 Yngri flokkar

Eins og oft hefur komið fram þá hefur körfuknattleiksíþróttin borið orðspor sveitarfélagsins víða.  Góður árangur Skallagríms  hefur vakið athygli og sveitarfélagið fengið mikla umfjöllun í fjölmiðlum vegna þess.

Í vetur hefur Skallagrímur verið með flokka í yngri deildum á Íslandsmóti og unga fólkið staðið sig gríðarlega vel. Það hefur verið stjórn mikið áhyggjuefni undanfarin ár hversu fáar stúlkur skila sér úr hverjum árgangi í íþróttagreinina en þar hefur nú orðið nokkur breyting á og er það mikið gleðiefni en samt er enn nokkur meirihluti iðkenda drengir, viljum við áfram leggja kapp á að fá til liðs við okkur fleiri stúlkur í körfuboltann

Mikið er um keppnisferðir og mótahald hjá svona stórum hópi iðkenda og hafa verið mót nánast allar helgar frá upphafið keppnistímabilsins hjá einhverjum aldurshópi og gaman að sjá hversu margir eru tilbúnir að leggja fram starfskrafta sína svo allt gangi upp bæði við ferðalög og skipulagningu móta hér heima.

Stjórn deildarinnar hefur eins og áður segir lagt mikið kapp á uppbyggingarstarf og eflingu yngri flokka. Í ljósi þeirrar stefnu þá má geta þess að þjálfarar yngriflokka sækja reglulega þjálfaranámskeið og eru duglegir að fylgjast með þróun á þessum vettvangi. Yfirþjálfari yngri flokka körfuknattleiksdeildar Skallagríms er Pálmi Þór Sævarsson.

Þáttökugjöld í íslandsmótum eru alfarið greidd af körfuknattleiksdeildinni.

Jafnréttismál

Mikil áhersla hefur jafnan verið lögð á jafnréttismál í körfuknattleiksdeild og liðum karla og kvenna gert jafn hátt undir höfði þegar bæði lið hafa verið skráð í íslandsmót.  Gætt hefur verið jafnræðis varðandi auglýsingar fyrir leiki meistaraflokka, aðgangssölu á leiki og umfjöllun á heimasíðu Skallagríms.

Fjármál/Fjáraflanir

Körfuknattleiksdeildin hefur haft mestar tekjur sínar af auglýsingasamningum við fyrirtæki og sölu aðgangsmiða og ársmiða á leiki mfl. karla og kvenna.   Auk þess hefur verið fitjað uppá ýmsum nýjungum í starfi deildarinnar til fjáröflunar og fjölbreytni.  Á árinu 2017 sá körfuknattleiksdeildin um veitingasölu og gæslu á tjaldsvæðum á Fjórðungsmóti hestamanna á Vesturlandi, skilaði það verkefni góðum tekjum með mikilli og óeigingjörnu vinnuframlagi fjölda fólks sem að deildinni stendur.  Einnig var farið í önnur átaksverkefni til þess að rétta af rekstur deildarinnar.

Meðal helstu fjáraflana/verkefna sem körfuknattleiksdeild hefur staðið fyrir:

 • Þorrablót – frá febrúar 2009 og árlega síðan.
 • Nytjamarkaður – Opinn flesta laugardaga frá júní lokum 2009. Stjórn og foreldar í afgreiðslu.
 • Heimilisvörur sala – frá 2009 gengið í hús og selt og síðar í fyrirtæki og á nytjamarkaði. Leikmenn meistaraflokka og á nytjamarkaði.

Ársreikningar deildarinnar fyrir undangengin rekstrarár sýna að það er mun umfangsmeiri rekstur þegar félagið á  úrvalsdeildarlið, hvort sem er í kvenna- eða karlaflokki, er sá rekstur nokkuð kostnaðarsamari en rekstur 1. deildarliðs, rekstur deildarinnar skilar afgangi á rekstrarárinu 2017, þökk sé mikilli og óeigingjörnu starfi stjórnarfólks, stuðningsfólks og góðum stuðningi fyrirtækja.

 Fjárhagslegar áherslur:

 • Fjármál yngri flokka og meistaraflokka séu áfram aðskilin.
 • Yngri flokka ráð heldur utanum starfsemi yngri flokka, fjármál og mótahald.
 • Meistaraflokksráð heldur utanum starfsemi meistaraflokka karla og kvenna, fjármál og mótahald.
 • Stjórn körfuknattleiksdeildar í heild sinni heldur utanum sameiginleg verkefni deildarinnar, faglegar áherslur, sameiginleg fjármál deildarinnar og sérstakar fjáraflanir.
 • Áhersla verður lögð á að halda rekstri í jafnvægi og efla áfram yngri flokka.
 • Hófs verður gætt í öllum rekstri og langtímamarkmið skoðuð reglulega.

Faglegt starf Körfuknattleiksdeildar Skallagríms

Yngri flokkar.

Yngri flokka starf deildarinnar sé öflugt eins og mörg undanfarin ár, þó er mismunandi hversu margir einstaklingar skila sér til æfinga úr einstaka árgöngum. Stefnt er að því að fjölga iðkendum áfram á næsta tímabili en þó ber að nefna að takmarkaður tími í íþróttasal er töluverð hindrun í yngriflokkastarfi deildarinnar.

Faglegar áherslur næsta tímabils:

 • Höldum áfram með starf yfirþjálfara yngri flokka.  Heldur hann utanum aukaæfingar í sumar fyrir þá sem vilja og undirbúning næsta tímabils.
 • Foreldrahandbók kynnt reglulega fyrir iðkendum og foreldrum.
 • Lögð verður áhersla á þjálfaramenntun og þjálfarar studdir til þess að sækja þjálfaranámskeið.
 • Markmið deildarinnar er að skrá sem flesta yngri flokka í mót næsta haust.
 • Gjaldskrá verður stillt í hóf.  Veittur er systkinaafsláttur, 50% fyrir annað systkini þriðja gjaldfrítt.
 • Að körfuknattleiksdeild Skallagríms verði til fyrirmyndar hvað varðar faglegt starf, rekstur og þjálfaramál yngri flokka.
 • Að öll framganga yngri flokka körfuknattleiksdeildar Skallagríms verði til fyrirmyndar innan vallar sem utan.

Meistaraflokkar.

Meistaraflokkur kvenna leikur í úrvalsdeild, vann sér sæti þar vorið 2016, og er nú í harðri baráttu um að tryggja sér sæti í úrslitakeppni deildarinnar, þjálfari liðsins er Ari Gunnarsson.

Meistaraflokkur karla leikur í 1.deild eftir að hafa fallið úr úrvalsdeild vorið 2017, liðið er nú í harðri baráttu um að tryggja sér sæti í úrvalsdeild að nýju.  Mfl. karla er eins og s.l. ár með ungt lið ásamt nokkrum reynsluboltum, þjálfari liðsins er Finnur Jónsson.

Landsliðsmenn úr röðum Skallagríms

Á árinu 2017 voru eftirtaldir leikmenn Skallagríms valdir í landsliðshópa og léku landsleiki fyrir hönd Íslands:  A landslið kvenna: Sigrún Sjöfn Ámundadóttir, Ragnheiður Benónísdóttir og Jóhanna Björk Sveinsdóttir, U15 drengir: Marinó Þór Pálmason, U16 drengir: Sigurður Aron Þorsteinsson, U18 drengir: Bjarni Guðmann Jónsson, U20 karla: Eyjólfur Ásberg Halldórsson,

Faglegar áherslur næsta tímabils:

 • Að utanumhald æfinga og leikja verði gert fagmannlega og með sóma.
 •  Að halda vel utanum leikmenn meistaraflokkana innan vallar sem utan.
 • Að mfl. karla og kvenna verði samkeppnishæf í sínum deildum.
 • Að efla áhuga almennings á íþróttinni.
 • Að leikmenn meistaraflokka Körfuknattleiksdeildar Skallagríms verði til fyrirmyndar innan vallar sem utan.

Að lokum vill undirritaður þakka öllu því góða fólki sem að starfi körfuknattleiksdeildar Skallagríms hefur komið.  Á þá jafnt við um stjórnarfólk, starfsmenn í kringum leiki og mót og alla þá sem að fjáröflunum og öðru starfi hafa komið.

Borgarnesi 20. mars 2018

f.h. stjórnar körfuknattleiksdeildar Skallagríms

Björn Bjarki Þorsteinsson

formaður