Finnur áfram með meistaraflokk karla – Hörður verður aðstoðarþjálfari

Körfuknattleiksdeild Skallagríms hefur endurnýjað samning sinn við Finn Jónsson um áframhaldandi þjálfun meistaraflokks karla. Finnur hefur verið við stjórnvölinn í meistaraflokki frá ársbyrjun 2014 og leiddi liðið til góðs sigurs í 1. deild karla í vetur sem tryggði því sæti í Dominos deildinni næsta tímabil. Finnur, sem er Borgnesingur í húð og hár, var áður leikmaður meistaraflokks Skallagríms og hefur þjálfað frá því að hann lagði skónna á hilluna, m.a. kvennalið Skallagríms og KR. Þá hefur hann þjálfað yngri landslið Íslands og er í dag þjálfari U20 ára landsliðs kvenna. Auk þess að þjálfa meistaraflokk mun Finnur taka við þjálfun unglingaflokks karla.

Finnur Jónsson, aðalþjálfari mfl. karla.

Körfuknattleiksdeildin hefur einnig ráðið Hörð Unnsteinsson sem aðstoðarþjálfara Finns í meistaraflokki karla. Hörður er borinn og barnfæddur Borgnesingur og snýr því aftur heim í Borgarnes en hann var fyrir daga sína í þjálfun leikmaður meistaraflokks Skallagríms. Hann hefur undanfarin ár þjálfað yngri flokka hjá Sandvika Baskettballklubb í Ósló í Noregi með góðum árangri, en þar áður þjálfaði hann yngri flokka hjá Breiðabliki. Hörður var aðstoðarþjálfari Finns hjá úrvalsdeildarliði KR í Dominos deild kvenna tímabilið 2013-2014 og tók við sem þjálfari eftir að Finnur tók við karlaliði Skallagríms á miðju tímabili. Í dag er Hörður aðstoðarþjálfari Finns í U20 ára landsliði kvenna.

Körfuknattleiksdeild Skallagríms lýsir yfir ánægju með þessar ráðningar sem er fyrsti áfangi í undirbúningnum fyrir komandi tímabil í Dominos deildinni.

Hörður Unnsteinsson, nýr aðstoðarþjálfari mfl. karla.