Björgvin og Bergþór í Skallagrím

Körfuknattleiksdeild Skallagríms hefur samið við bræðurna Björgvin og Bergþór Ríkharðssynir og munu þeir leika með liðinu í Dominos deildinni næsta vetur.

Björgvin kemur til Skallagríms frá Tindastóli þar sem hann hefur leikið tvö síðustu tímabil. Áður lék hann með ÍR og Fjölni. Björgvin lék mikilvægt hlutverk í liði Tindastóls í vetur sem varð bikarmeistari og hafnaði í 2. sæti í Íslandsmótinu. Með Stólunum skoraði hann 5 stig að meðaltali í leik og tók 2,9 fráköst. Björgvin verður 25 ára síðar á árinu en hann leikur stöðu bakvarðar.

Bergþór kemur að austan frá Hetti þar sem hann lék með liðinu á síðasta tímabili í Dominos deildinni. Bergþór var með 5,6 stig að meðaltali í leik ásamt því að taka 4,9 fráköst og gefa 2,5 stoðsendingar. Hann verður 21 árs í haust og leikur stöðu framherja.

Bræðurnir þekkja vel til hjá Skallagrími og í Borgarnesi en þeir bjuggu þar ásamt fjölskyldu sinni um árabil og æfðu körfubolta í yngri flokkum Skallagríms. Á unglingsárum fluttu þeir til Reykjavíkur þar sem þeir fóru að æfa með Fjölni. Það er því sérstakt ánægjuefni að fá þá aftur heim í Skallagrím.

Geta má þess að í Skallagrími hitta bræðurnir systur sína, Heiðrúnu Hörpu, sem leikur með meistaraflokki kvenna.

Fleiri tíðindi af leikmannamálum í meistaraflokki karla er að vænta á næstu dögum.

Áfram Skallagrímur! Áfram Borgarnes!

Björgvin Ríkharðsson handsala samninginn við Arnar Víði Jónsson formanns mfl. ráðs karla.

 

Bergþór Ríkharðsson handsalar samning sinn við Arnar Víði Jónsson formann mfl. ráðs karla.