Samningar endurnýjaðir við Eyjólf og Bjarna

Eyjólfur Ásberg Halldórsson og Bjarni Guðmann Jónsson hafa endurnýjað samninga sína við Skallagrím og munu leika með liðinu í næsta vetur í Dominos deildinni. Þeir félagar voru burðarásar í sigurliði Skallagríms í 1. deildinni á nýliðnu tímabili og er áframhaldandi vera þeir í liðinu því mikið fagnaðarefni.

Eyjólfur átti glæsilegt tímabil í 1. deildinni þar sem hann var með 18,2 stig, 10,3 fráköst og 7 stoðsendingar að meðaltali í leik. Hann var valinn leikmaður ársins í deildinni á verðlaunahófi KKÍ þar sem hann var einnig valinn í lið ársins. Þá var hann útnefndur leikmaður ársins í meistaraflokki á lokahófi Skallagríms. Næsta tímabil verður þriðja tímabil Eyjólfs í herbúðum Skallagríms en hann gekk í raðir liðsins árið 2016.

Bjarni Guðmann átti einnig gott tímabil í 1. deildinni. Hann skoraði 9,6 stig, tók 4,9 fráköst og gaf 2,3 stoðsendingar að meðaltali í leik. Bjarni var valinn í lið ársins í 1. deildinni á verðlaunahófi KKÍ og þá var hann útnefndur varnarmaður ársins á lokahófi Skallagríms. Bjarni er borinn og barnfæddur Borgnesingur og hefur spilað með Skallagrími upp yngri flokka og í meistaraflokk.

Geta má þess að Eyjólfur og Bjarni standa í stórræðum um þessar mundir en báðir eru í æfingahópi U20 ára landsliðs Íslands. U20 keppir í sterkri A-deild Evrópukeppni FIBA í Þýskalandi í júlí. Lokahópur liðsins verður tilkynntur í júní. Báðir hafa þeir verið í yngri landsliðum Íslands á síðastliðnum árum.

Frekari tíðindi af leikmannamálum eru væntanleg næstu daga.

Eyjólfur sækir að körfunni í leik gegn FSu í vetur. Mynd. Ómar Örn.

 

Bjarni Guðmann á vítalínunni. Mynd. Ómar Örn.