Gíslasynir með á næsta tímabili

Bræðurnir Kristófer og Guðbjartur Máni Gíslasynir hafa endurnýjað samninga sína við Skallagrím og verða í herbúðum liðsins á næsta tímabili í Dominos deildinni. Þessir rótgrónu Borgnesingar og Skallagrímsmenn hafa æft körfubolta með liðinu frá blautu barnsbeini og hafa tekið mikilvægum framfaraskrefum á liðnum árum.

Kristófer var drjúgur á síðasta tímabili í 1. deildinni og skoraði 13,7 og tók 4,8 fráköst. Á lokahófi Skallagríms fékk hann verðlaun fyrir mestu framfarir á tímabilinu. Máni kom aftur á móti lítillega við sögu í meistaraflokki en var mikilvægur stólpi í liði unglingaflokks sem komst í 8-liða úrslit Íslandsmótsins.

Búast má við fleiri fregnum af leikmannamálum á næstunni.