112 krakkar í körfuboltabúðum Arion banka og Skallagríms

Körfuboltabúðir Skallagríms og Arion Banka voru haldnar með pompi og prakt í Borgarnesi um síðustu helgi. Þar mættu 112 sprækir körfuboltakrakkar af öllu Vesturlandi og léku listir sínar undir stífri leiðsögn þjálfara og leikmanna meistaraflokka Skallagríms.

Gestaþjálfarar búðanna, Ólöf Helga Pálsdóttir og Finnur Freyr Stefánsson, slógu einnig í gegn hjá krökkunum og eru þeim kunnar bestu þakkir fyrir komuna.

Auk körfuboltaæfinga var krökkum í 5-10. bekk boðið upp á fyrirlestur frá Bergsveini Ólafssyni knattspyrnumanni þar sem hann leiðbeindi krökkunum á praktískan hátt um markmiðasetningu hvort heldur sem það sé í tómstundum eða skóla.

Við vonum að allir krakkarnir hafi fengið hvatningu til að halda áfram að æfa sig eftir helgina og yfirgefið húsið með bros á vör.

Gunnhildur Lind Hansdóttir ljósmyndari tók myndir frá búðunum sem skoða má hér að neðan. Þar sést körfuboltafólk framtíðarinnar leika listir sínar.