Yfirlýsing í framhaldi af aðalfundi: Horft til framtíðar

Aðalfundur Körfuknattleiksdeildar Skallagríms fór fram 6. maí s.l. Á fundinum urðu breytingar á stjórnarfyrirkomulagi deildarinnar. Kosin var 7 manna stjórn sem fer með málefni deildarinnar. Eftir sem áður byggir starfið á ráðum sem stýra starfi flokkanna. Ráðin eru meistaraflokksráð karla, meistaraflokksráð kvenna og yngri flokka ráð og samanstandur stjórn körfuknattleiksdeildarinnar af formanni og tveimur meðlimum úr hverju ráði. Saman koma þessir einstaklingar til með að taka ákvarðanir og vinna að uppbyggingu sem varðar starfsemi deildarinnar í heild sinni.

Á næstunni fer í gang vinna innan deildarinnar við það að móta starf hennar til næstu 5 ára. Öll ráð deildarinnar og formaður koma til með að vinna saman að því að gera heildstæða stefnu sem góð sátt er um og hægt er að vinna eftir. Einnig liggur fyrir að vinna þarf að því að styrkja fjárhag deildarinnar þannig að jafnvægi náist í rekstri hennar.

Samstaða og samstarf á að einkenna starf Körfuknattleiksdeildar Skallagríms og þannig er ætlunin að byggja upp traust og gott körfuboltastarf sem skilar sér í betri þjálfun iðkenda og blómlegu íþróttalífi í samfélaginu.

F.h. Körfuknattleiksdeildar Skallagríms

Margrét Halldóra Gísladóttir, formaður