Lísbeth, Heiður og Ingibjörg valdar í Afreksbúðir KKÍ og Kristals

Borgfirðingarnir Lísbeth Inga Kristófersdóttir, Heiður Karlsdóttir og Ingibjörg Þórðardóttir hafa verið valdar í Afreksbúðir KKÍ og Kristals 2019 sem fram fara í Origo höllinni að Hlíðarenda í Reykjavík dagna 8.-9. júní nk. Það var yfirþjálfari stúlkna í búðunum, körfuboltastjarnan Helena Sverrisdóttir, sem valdi hópinn en alls voru 52 stúlkur valdar til æfinga að þessu sinni, allar fæddar árið 2005.

Afreksbúðirnar eru undanfari U15 ára landsliðs kvenna og því mikill heiður fyrir Lísbeth, Heiði og Ingibjörgu að vera valdar. Þær hafa leikið með sameiginlegu liði Reykdæla og Skallagríms í 8. flokki í vetur og tekið góðum framförum. Þá æfðu Lísbeth og Heiður með meistaraflokki Skallagríms í vetur.

Allar eru þær úr uppsveitum Borgarfjarðar, Lísbeth frá Litla-Bergi í Reykholtsdal, Ingibjörg frá Húsafelli og Heiður frá Laugarvöllum í Reykholtsdal.

Við óskum stelpunum til hamingju með valið og góðs gengis í afreksbúðunum í júní!

Mynd: Frá vinstri Ingibjörg, Lísbeth og Heiður (Ljósmyndari Guðjón Guðmundsson)