Manuel Rodríguez er nýr þjálfari meistaraflokks karla

Körfuknattleiksdeild Skallagríms hefur ráðið Spánverjann Manuel A. Rodríguez sem næsta þjálfara meistaraflokks karla. Manuel er vel kunnugur í herbúðum Skallagríms því hann þjálfaði meistaraflokk kvenna í tvö tímabil á árunum 2015-2017 með góðum árangri þar sem hann stýrði liðinu upp í úrvalsdeild og leiddi það í bikarúrslit og úrslitakeppni.

Manuel mun einnig taka að sér þjálfun yngri flokka næsta vetur líkt og hann gerði þegar hann var síðast hjá félaginu.

Manuel er 39 ára gamall og reynslumikill þjálfari sem á að baki fjölbreyttan feril. Hann hefur stýrt félags- og skólaliðum í Svíþjóð og á Spáni og verið í þjálfarateymi yngri landsliða í heimalandi sínu.

Stjórn deildarinnar lýsir yfir ánægju sinni með komu Manuels en hann mun leiða uppbyggingarstarf í meistaraflokki karla á næstu árum. Samningur hans er til þriggja ára.

Við bjóðum Manuel velkomin á ný í Borgarnes!

Áfram Skallagrímur!