Maja og Gunnhildur semja við Skallagrím

Maja Michalska og Gunnhildur Lind Hansdóttir hafa samið við körfuknattleiksdeild Skallagríms um að leika með meistaraflokki kvenna í Dominos deildinni á næstu leiktíð.

Maja sem er frá Póllandi lék með liðinu á síðasta tímabili og var öflug, skoraði 11,1 stig, tók 6 fráköst og gaf 2,8 stoðsendingar að meðaltali í leik. Hún leikur stöðu bakvarðar og er 24 ára gömul.

Gunnhildur Lind er uppalin Skallagrímskona og snýr aftur tilbaka eftir meiðsli. Hún var síðast í leikmannahópi liðsins tímabilið 2017-2018 en á að baki fjölda leika í meistaraflokki fyrir Skallagrím. Hún leikur stöðu framherja og er 29 ára gömul.

Mikil ánægja er með þessa samninga og munu Maja og Gunnhildur Lind styrkja Skallagrím vel í baráttunni framundan.

Frekari tíðindi af leikmannamálum meistaraflokks kvenna eru væntanleg á næstunni.

Áfram Skallagrímur!

Mynd 1: Maja í baráttunni í leik gegn Keflavík síðasta vetur.
Mynd 2: Gunnhildur Lind handsalar samninginn við Þórhildi Maríu Kristinsdóttur hjá meistaraflokksráði kvenna.