Category: Fréttir

112 krakkar í körfuboltabúðum Arion banka og Skallagríms

Körfuboltabúðir Skallagríms og Arion Banka voru haldnar með pompi og prakt í Borgarnesi um síðustu helgi. Þar mættu 112 sprækir körfuboltakrakkar af öllu Vesturlandi og léku listir sínar undir stífri leiðsögn þjálfara og leikmanna meistaraflokka Skallagríms.

Gestaþjálfarar búðanna, Ólöf Helga Pálsdóttir og Finnur Freyr Stefánsson, slógu einnig í gegn hjá krökkunum og eru þeim kunnar bestu þakkir fyrir komuna.

Auk körfuboltaæfinga var krökkum í 5-10. bekk boðið upp á fyrirlestur frá Bergsveini Ólafssyni knattspyrnumanni þar sem hann leiðbeindi krökkunum á praktískan hátt um markmiðasetningu hvort heldur sem það sé í tómstundum eða skóla.

Við vonum að allir krakkarnir hafi fengið hvatningu til að halda áfram að æfa sig eftir helgina og yfirgefið húsið með bros á vör.

Gunnhildur Lind Hansdóttir ljósmyndari tók myndir frá búðunum sem skoða má hér að neðan. Þar sést körfuboltafólk framtíðarinnar leika listir sínar.

Jólakveðja

Körfuknattleiksdeild Skallagríms þakkar stuðninginn á árinu sem er að líða og óskar öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Sjáumst hress á nýju körfuboltári!

Síðustu leikir fyrir jól

Í vikunni fara fram lokaumferðir Domino’s deildar karla og kvenna á þessu almanaksári.

Á miðvikudaginn leikur kvennaliðið á móti KR á meðan karlaliðið mætir Njarðvík á fimmtudaginn. Báðir leikir fara fram í Borgarnesi og hefjast kl. 19:15.

Fjölmennum á leikina og styðjum okkar fólk til sigurs.

Áfram Borgarnes!

Bikarleikur gegn Selfossi í kvöld

Skallagrímsmenn fá Selfyssinga í heimsókn í kvöld í 16-liða úrslitum Geysisbikars karla. Leikurinn hefst kl. 19:15

Fjölmennum og styðjum strákana til sigurs.

Skallagrímshúfan sívinsæla verður til sölu á leiknum. Tilvalin í jólapakkann.

Áfram Skallagrímur!

Biljana Stanković ráðin þjálfari meistaraflokks kvenna

Meistaraflokksráð kvenna hefur ráðið Biljönu Stanković sem nýjan þjálfara meistaraflokks kvenna. Biljana er 44 ára gömul og er frá Serbíu. Hún hefur síðustu ár þjálfað yngri flokka hjá hjá Kris Kros Pancevo í Serbíu og þá hefur hún verið aðstoðarþjálfari hjá yngri kvennalandsliðum Serbíu með frábærum árangri.

Hún átti glæsilegan leikmannaferil og á að baki fjölda titla með félagsliðunum sem hún lék með m.a. Hemofarm, Partizan og Radivoj Korać. Þá á hún yfir 100 landsleiki með Serbíu og var fyrirliði liðsins í sjö ár og lék með því á Evrópumóti og Heimsmeistaramóti. Biljana lagði skóna á hilluna fyrir tveimur árum og hefur einbeitt sér að þjálfun síðan og menntað sig í þeim fræðum í heimalandi sínu.

Biljana kemur til landsins á fimmtudaginn og stýrir Skallagrími í sínum fyrsta leik gegn Stjörnunni á útivelli á laugardaginn. Meistaraflokksráð lýsir yfir ánægju sinni með ráðninguna og býður Biljönu velkomna í Borgarnes.

Áfram Skallagrímur!

Yfirlýsing frá meistaraflokksráði kvenna: Ari hættir

Yfirlýsing frá meistaraflokksráði kvenna:

Meistaraflokksráð kvenna og Ari Gunnarsson hafa komist að samkomulagi um að Ari hætti þjálfun meistaraflokks kvenna. Meistaraflokksráð þakkar Ara fyrir störf sín fyrir félagið og óskar honum velfarnaðar í framtíðinni.

Leit er hafin að nýjum þjálfara.

Sigrún Sjöfn valin í landsliðið

Í gær var tilkynnt hvaða leikmenn hafa verið valdir í leikmannahóp A-landsliðs kvenna sem mætir Slóvakíu og Bosníu í undankeppni fyrir EuroCup 2019. Meðal þeirra er Sigrún Sjöfn Ámundadóttir fyrirliði Skallagríms. Óskum Sigrúnu til hamingju með valið og sendum baráttukveðjur til landsliðsins í leikjunum framundan.

Leikirnir fara fram í Laugardalshöll og eru leikdagar eftirfarandI:

Ísland – Slóvakía laugardaginn 17. nóv. kl. 16:00

Ísland – Bosnía miðvikudaginn 21. nóv. kl. 19:45

Áfram Ísland!

Skemmtikvöldi aflýst

Tekin hefur verið ákvörðun um að aflýsa skemmtikvöldi Skallagríms sem átti að fara fram í Hjálmakletti í Borgarnesi á morgun. Því miður gekk miðasala ekki eins og væntingar stóðu til.

Þeir sem keyptu miða geta fengið þá endurgreidda með því að hafa samband við þann aðila sem þeir keyptu miðana af. Einnig er hægt að hafa samband við Kristínu Jónsdóttur (s. 844 2392) eða Ragnheiði Guðmundsdóttur (s. 896 6678) varðandi endurgreiðslu.

Stuð framundan: Skemmtikvöld Skallagríms 10. nóvember

Það verður glatt á hjalla í Hjálmakletti í Borgarnesi 10. nóvember næst komandi þegar körfuknattleiksdeild Skallagríms efnir til skemmtikvölds. Boðið verður upp á líflega dagskrá og hlaðborð af gómsætum réttum.

Miðaverð er 3000 kr. og rennur allur ágóði í starf körfuknattleiksdeildar Skallagríms.

Miðar eru til sölu hjá leikmönnum og stjórnarfólki í stjórnum og ráðum körfuknattleiksdeildar. Miðar eru einnig til sölu í verslun Tækniborgar að Borgarbraut 61 í Borgarnesi.

Sjá nánar um dagskránna í auglýsingunni hér að neðan. Áfram Skallagrímur!