Category: Fréttir

Lísbeth, Heiður og Ingibjörg valdar í Afreksbúðir KKÍ og Kristals

Borgfirðingarnir Lísbeth Inga Kristófersdóttir, Heiður Karlsdóttir og Ingibjörg Þórðardóttir hafa verið valdar í Afreksbúðir KKÍ og Kristals 2019 sem fram fara í Origo höllinni að Hlíðarenda í Reykjavík dagna 8.-9. júní nk. Það var yfirþjálfari stúlkna í búðunum, körfuboltastjarnan Helena Sverrisdóttir, sem valdi hópinn en alls voru 52 stúlkur valdar til æfinga að þessu sinni, allar fæddar árið 2005.

Afreksbúðirnar eru undanfari U15 ára landsliðs kvenna og því mikill heiður fyrir Lísbeth, Heiði og Ingibjörgu að vera valdar. Þær hafa leikið með sameiginlegu liði Reykdæla og Skallagríms í 8. flokki í vetur og tekið góðum framförum. Þá æfðu Lísbeth og Heiður með meistaraflokki Skallagríms í vetur.

Allar eru þær úr uppsveitum Borgarfjarðar, Lísbeth frá Litla-Bergi í Reykholtsdal, Ingibjörg frá Húsafelli og Heiður frá Laugarvöllum í Reykholtsdal.

Við óskum stelpunum til hamingju með valið og góðs gengis í afreksbúðunum í júní!

Mynd: Frá vinstri Ingibjörg, Lísbeth og Heiður (Ljósmyndari Guðjón Guðmundsson)

Góður vetur að baki hjá 8. flokki stelpna

Reykdælir og Skallagrímur sendu í haust sameiginlegt lið í 8.flokki stelpna til keppni á Íslandsmótinu. Stelpurnar hófu keppni í A-riðli í haust en þær höfðu unnið sér rétt til að spila þar með því að fara taplausar í gegn um Íslandsmótið í fyrra. Stelpurnar náðu að halda sæti sínu í A-riðli í allan vetur.

Á lokamótinu sem fram fór í Keflavík um síðustu helgi fóru leikar þannig að Keflavík sigraði og urðu þannig Íslandsmeistarar í þriðja skiptið í röð. En úrslitin á Íslandsmótinu urðu annars þannig.

1 sæti Keflavík 8 stig.

2. Sæti KR 4 stig.

3. Sæti Þór/Hrunamenn 4 stig

4. Sæti Reykdælir/Skallagrímur 4 stig.

5. Sæti Hamar/Selfoss 0 stig

Þess má geta að Skallagríms stelpurnar sem spiluðu með liðinu eru allar úr 7. Flokki og er þar með að spila upp fyrir sig með þessu sameiginlega liði.

Þjálfarar liðsins eru þau Guðjón Guðmundsson frá Reykdælum og Sigrún Sjöfn Ámundadóttir frá Skallagrími

Frábær árangur hjá stelpunum sem gefur góð fyrirheit fyrir framtíðina hjá þeim á körfuboltavellinum!

Góð frammistaða hjá minnibolta stelpna í lokaumferðinni

Um síðustu helgi fóru fóru stelpurnar í minnibolta 10 ára og kepptu á lokamótinu á Íslandsmótinu í þeim aldursflokki.

Skallagrímur sendi tvö lið til leiks að þessu sinni en A-liðið keppti í A-riðli á meðan að B-liðið keppti í D-riðli.

Mótherjar A-liðsins að þessu sinni voru Ármann, Grindavík, Keflavík, KR og Þór Akureyri. Fyrirfram var veik von um að tækist að landa Íslandsmeistaratitlinum en þá hefðum við þurft að vinna alla okkar leiki og treysta á úrslit úr öðrum leikjum. Annað af þessu gerðist. Á laugardeginum byrjuðum við á því að spila á móti KR en sá leikur endaði 16-18 fyrir KR en sigurkarfa þeirra kom þegar 6 sekúndur voru eftir af leiknum. Næsta verkefni stelpnana var leikur gegn Grindavík en þar hafðist 18-14 sigur. Síðasti leikur laugardagsins var gegn liði Þórs Akureyri en endaði sá leikur með 6 stiga tapi 18-24 í framlengdum leik. Á sunnudeginum áttum við 2 leiki og byrjuðum gegn Keflavík en við töpuðum þeim leik 14-16 en Keflavík skoraði sigurkörfuna frá miðju þegar um 3 sekúndur voru eftir! Í síðasta leiknum spiluðum við svo við Ármann en þar hafðist sigur 29-10 í mjög vel spiluðum leik hjá okkar stelpum.

Mótherjar B-liðsins að þessu sinni voru Afturelding, Haukar c, Haukar d og Stjarnan c. Á laugardeginum spiluðu stelpurnar við Aftureldingu þar sem þær töpuðu 16-18 eftir hetjulega baráttu þar sem úrslitin réðust ekki fyrr en í lokin. Síðan var seinni leikurinn á laugardeginum gegn gestgjöfunum í Haukum c þar sem stelpurnar þurftu að játa sig sigraðar 20-32. Á sunnudeginum spiluðu þær síðan við d lið Hauka og hafðist sigur í þeim leik 18-12 í frábærlega spiluðum leik. Síðasti leikur helgarinnar var síðan spilaður við c lið Stjörnunar og þar hafðist sigur 10-6. Afrakstur helgarinnar því 2 sigrar og 2 töp og 3. Sætið í riðlinum raunin.

Það er ljóst að það er ekki langt á milli bestu liða í þessum aldursflokki og er mikilvægt að halda vel á spilunum á næstu árum. Framfarirnar í þessum hópi hafa verið stórkostlegar núna á þessu ári hjá öllum stelpunum. Þjálfari minnibolta 10 ára stelpna er Rúnar Ólason.

Björgvin valinn í æfingahóp A-landsliðsins

Björgvin Hafþór Ríkharðsson, fyrirliði Skallagríms í vetur, hefur verið valinn í æfingahóp A-landsliðs karla vegna þátttöku Íslands á Smáþjóðaleikunum í lok mánaðarins.

Tilkynnt var um valið í dag en alls voru 16 leikmenn valdir. Hópurinn hefur verið við æfingar síðan á mánudaginn og verður endanlegur 12 manna hópur valinn eftir komandi helgi.

Eins fram hefur komið í fjölmiðlum hefur Björgvin samið við Grindavík og mun því ekki leika með Skallagrími næsta vetur í 1. deildinni.

Við óskum Björgvini til hamingju með valið! Um leið þökkum við honum fyrir veturinn og óskum honum góðs gengis suður með sjó á næsta tímabili!

Yfirlýsing í framhaldi af aðalfundi: Horft til framtíðar

Aðalfundur Körfuknattleiksdeildar Skallagríms fór fram 6. maí s.l. Á fundinum urðu breytingar á stjórnarfyrirkomulagi deildarinnar. Kosin var 7 manna stjórn sem fer með málefni deildarinnar. Eftir sem áður byggir starfið á ráðum sem stýra starfi flokkanna. Ráðin eru meistaraflokksráð karla, meistaraflokksráð kvenna og yngri flokka ráð og samanstandur stjórn körfuknattleiksdeildarinnar af formanni og tveimur meðlimum úr hverju ráði. Saman koma þessir einstaklingar til með að taka ákvarðanir og vinna að uppbyggingu sem varðar starfsemi deildarinnar í heild sinni.

Á næstunni fer í gang vinna innan deildarinnar við það að móta starf hennar til næstu 5 ára. Öll ráð deildarinnar og formaður koma til með að vinna saman að því að gera heildstæða stefnu sem góð sátt er um og hægt er að vinna eftir. Einnig liggur fyrir að vinna þarf að því að styrkja fjárhag deildarinnar þannig að jafnvægi náist í rekstri hennar.

Samstaða og samstarf á að einkenna starf Körfuknattleiksdeildar Skallagríms og þannig er ætlunin að byggja upp traust og gott körfuboltastarf sem skilar sér í betri þjálfun iðkenda og blómlegu íþróttalífi í samfélaginu.

F.h. Körfuknattleiksdeildar Skallagríms

Margrét Halldóra Gísladóttir, formaður

Almar valinn í Úrvalsbúðir KKÍ & Kristals

Skallagrímsmaðurinn Almar Orri Kristinsson hefur verið valinn í Afreksbúðir KKÍ & Kristals 2019. Í búðunum koma saman 54 strákar, fæddir árið 2005, sem hafa verið valdir af yfirþjálfara búðanna, Snorra Erni Arnaldssyni. Afreksbúðirnar eru undanfari að U15 ára landsliði Íslands og því mikill heiður fyrir Almar að vera valinn. Búðirnar fara fram 8. – 9. júní nk. í Origo-höllinni að Hlíðarenda í Reykjavík.

Almar hefur leikið í vetur með 9. – 10. flokki drengja hjá Skallagrími og tekið góðum framförum. Einnig hefur hann leikið með sameiginlegu liði Snæfell/Skallagrímur í 8 flokki í vetur.

Við óskum Almari til hamingju með valið og góðs gengis í afreksbúðunum í júní!

Bjarni Guðmann fer í háskólaboltann í Bandaríkjunum

Bjarni Guðmann Jónsson heldur á vit nýrra ævintýra næsta vetur í Bandaríkjunum. Þar hefur hann háskólanám við Fort Hays State University í Kansas og leikur með liði skólans Í NCAAII deildinni.

Bjarni Guðmann, sem verður 20 ára í sumar, er uppalinn Skallagrímsmaður og Borgnesingur og hefur tekið stórstigum framförum á undanförnum árum. Hann var burðarás í liði meistaraflokks karla í Dominos deildinni í vetur og hefur átt fast sæti í yngri landsliðum Íslands á undanförnum árum.

Við óskum Bjarna góðs gengis í baráttunni vestanhafs næsta vetur!

Sigrún Sjöfn í æfingahóp fyrir Smáþjóðaleikanna

Æfingahópur A-landsliðs kvenna hóf undirbúning í gær fyrir Smáþjóðaleikanna sem fram fara í Svarfjallalandi 27. maí – 1. júní. Skallagrímur á einn fulltrúa í æfingahópnum en það er Sigrún Sjöfn Ámundadóttir fyrirliði meistaraflokks kvenna.

Lokahópurinn verður valinn fljótlega en landsliðsþjálfari er Benedikt Guðmundsson.

Mynd: Frá æfingu landsliðsins í gær í Dalhúsum í Grafarvogi/kki.is

Aðalfundur 2019: Ný stjórn kjörin

Aðalfundur körfuknattleiksdeildar Umf. Skallagríms fór fram sl. mánudag í Hjálmakletti í Borgarnesi. Þar var ný stjórn deildarinnar kjörin en hana skipa:

Margrét Gísladóttir, formaður

Arnar Víðir Jónsson – tilnefndur af meistarflokksráði karla

Birgir Andrésson – tilnefndur af meistaraflokksráði karla

Guðmundur Smári Valsson – tilnefndur af meistaraflokksráði kvenna

Þórhildur María Kristinsdóttir – tilnefnd af meistaraflokksráði kvenna

Einar Árni Pálsson – tilnefndur af yngriflokkaráði

Kristinn Óskar Sigmundsson – tilnefndur af yngriflokkaráði

AÐALFUNDUR KÖRFUKNATTLEIKSDEILDAR 2019

Aðalfundur körfuknattleiksdeildar Umf. Skallagríms verður haldinn mánudaginn 6. maí nk. kl. 20:00 í Hjálmakletti, Borgarbraut 54 í Borgarnesi.

Dagskrá samkvæmt lögum aðalstjórnar Skallagríms:

1.     Formaður setur fundinn

2.     Kosinn fundarstjóri

3.     Kosinn fundarritari

4.     Fundargerð síðasta aðalfundar lögð fram til samþykktar

5.     Formaður gefur skýrslu um starfsemi á liðnu starfsári

6.     Gjaldkeri leggur fram og útskýrir áritaða reikninga deildarinnar sem síðan eru bornir undir atkvæði.

7.     Stjórnarkjör

8.     Önnur mál

 

Allir velkomnir!

Stjórnin