Category: Fréttir

Matej Buovac í Skallagrím

Skallagrímur hefur samið við framherjann Matej Buovac um að leika með liðinu í Dominos deildinni á næsta tímabili. Matej er 25 ára gamall og er frá Króatíu en hann er 2,01 m á hæð.

Matej leikur stöðu framherja en getur þó brugðið sér í allar stöður á vellinum. Hann lék með KK Zagreb í Króatísku úrvalsdeildinni í fyrra þar sem hann var með 10,7 stig að meðaltali í leik. Áður lék hann í NCCA D1 háskólaboltanum í Bandaríkjunum, fyrst með New Mexico State og síðar með Sacred Heart University. Á útskriftartímabili sínu með Sacred Heart var hann með 9 stig að meðaltali í leik.

Þá á Matej að baki landsleiki með U18 og U20 ára landsliðum Króatíu.

Við bjóðum Matej velkominn í Borgarnes!

Mynd: Matej í leik með KK Zagreb síðasta vetur. Ljósmynd/KK Zagreb.hr

Leikjaplan næsta tímabils liggur fyrir

KKÍ hefur dregið í töfluröð í Dominos deildum karla og kvenna fyrir næsta keppnistímabil og liggja því leikdagar fyrir.

Meistaraflokkur kvenna hefur leik miðvikudaginn 3. október og keppir gegn liði Vals á útivelli á meðan meistaraflokkur karla heimsækir Íslandsmeistaranna í KR í Vesturbænum fimmtudaginn 4. október.

Fyrstu heimaleikirnir eru síðan viku síðar þegar meistaraflokkur kvenna mætir Breiðabliki miðvikudaginn 10. október og meistaraflokkur karla mætir Grindavík fimmtudaginn 11. október.

Leikjaplan meistaraflokks karla 2018-2019.

Leikjaplan meistaraflokks kvenna 208-2019.

Bjarni, Eyjólfur og Bríet valin í lokahópa U20

Þrír Skallagrímsmenn hafa verið valdir í lokahópa U20 ára landsliða Íslands. Þetta eru Bjarni Guðmann Jónsson og Eyjólfur Ásberg Halldórsson í U20 karla og Bríet Lilja Sigurðardóttir í U20 kvenna.

U20 karla keppir í A-deild Evrópumótsins og fer keppnin fram í borginni Chemnitz í Þýskalandi 14. til 22. júlí. U20 kvenna keppir aftur á móti í B-deild Evrópumótsins sem verður haldin í borginni Oradea í Rúmeníu 7. til 15. júlí.

Þjálfarateymi mfl. karla stýrir U20 ára landsliði kvenna, þeir Finnur Jónsson aðalþjálfari og Hörður Unnsteinsson aðstoðarþjálfari. Þjálfari U20 karla er Israel Martin en honum til aðstoðar er Baldur Þór Ragnarsson

Geta má þess að í vor var Marínó Þór Pálmason valin í lokahóp U16 sem keppir á Norðurlandamótinu síðar í þessum mánuði.

Við óskum okkar fólki góðs gengis fyrir Íslands hönd í sumar!

Árnína Lena semur á ný – Samið við Karen Dögg

Körfuknattleiksdeild Skallagríms hefur samið við Karen Dögg Vilhjálmsdóttur um að leika með meistaraflokki kvenna á næsta tímabili. Karen Dögg er úr Njarðvík en þar lék hún síðasta vetur og skoraði 4,6 stig að meðaltali og tók 2,7 fráköst. Karen verður 21 árs í haust en hún leikur stöðu miðherja.

Þá hefur Skallagrímur endurnýjað samning við framherjann Árnínu Lenu Rúnarsdóttur sem einnig er frá Suðurnesjum. Árnína sem verður 25 ára í haust gekk í raðir Skallagríms síðasta vetur frá Njarðvík og var með 2,1 stig að meðaltali í leik.

Samningarnir við Karen og Árnínu eru fyrstu púslin í leikmannamálum sem lögð eru á borðið í undirbúningnum fyrir átökin í Dominos deildinni næsta vetur. Frekari fregnir eru væntanlegar á næstunni.

Árnína Lena og Karen Dögg innsigla samninga sína við Ragnheiði Guðmundsdóttur hjá mfl. ráði kvk.

Gíslasynir með á næsta tímabili

Bræðurnir Kristófer og Guðbjartur Máni Gíslasynir hafa endurnýjað samninga sína við Skallagrím og verða í herbúðum liðsins á næsta tímabili í Dominos deildinni. Þessir rótgrónu Borgnesingar og Skallagrímsmenn hafa æft körfubolta með liðinu frá blautu barnsbeini og hafa tekið mikilvægum framfaraskrefum á liðnum árum.

Kristófer var drjúgur á síðasta tímabili í 1. deildinni og skoraði 13,7 og tók 4,8 fráköst. Á lokahófi Skallagríms fékk hann verðlaun fyrir mestu framfarir á tímabilinu. Máni kom aftur á móti lítillega við sögu í meistaraflokki en var mikilvægur stólpi í liði unglingaflokks sem komst í 8-liða úrslit Íslandsmótsins.

Búast má við fleiri fregnum af leikmannamálum á næstunni.

Ari Gunn endurráðinn

Körfuknattleiksdeild Skallagríms hefur endurráðið Ara Gunnarsson sem þjálfara meistaraflokk kvenna í Dominos deildinni næsta vetur. Ari tók við liðinu þegar nokkuð var liðið á síðasta tímabil og leiddi það inn í úrslitakeppni Dominos deildarinnar. Þar mætti Skallagrímur fyrnasterku liði Hauka sem bar sigurorð í viðureigninni.

Þetta verður því annað tímabil Ara með Skallagrím en hann þjálfaði áður lið Vals í Dominos deildinni.

Eins og Skallagrímsmenn þekkja vel þá er Ari flestum hnútum kunnugur í Borgarnesi en hann lék um tíu ára skeið með meistaraflokki Skallagríms í efstu deild.

Mynd: karfan.is/Bára Dröfn.

Kristján Örn og Arnar Smári áfram

Hinir ungu og efnilegu leikmenn Kristján Örn Ómarsson og Arnar Smári Bjarnason hafa skrifað undir samning við Skallagrím og verða í leikmannahópi liðsins á næsta tímabili.

Kristján Örn sem leikur stöðu framherja tók mikilvægum framförum á síðasta tímabili þar sem hann var með 5,7 stig í leik og 3 fráköst. Hann lék stórt hlutverk í liði unglingaflokks karla á tímabilinu sem komst í 8-liða úrslit í Íslandsmótinu og var valinn mikilvægasti leikmaður unglinaflokks á lokahófi Skallagríms í vor. Kristján verður 21 árs í september.

Arnar Smári, sem verður 17 ára í júní, leikur stöðu bakvarðar og hefur verið að taka góðum framförum á liðnum árum. Hann lék stórt hlutverk í liðum drengja- og unglingaflokks Skallagríms í vetur og kom við sögu í nokkrum leikjum meistaraflokks.

Fleiri fregnir af leikmannamálum eru væntanlegar.

Áfram Skallagrímur! Áfram Borgarnes!

Davíð snýr aftur – Atli áfram

Davíð Ásgeirsson hefur ákveðið að snúa aftur í leikmannahóp Skallagríms eftir eins árs hlé og leikur með liðinu á næsta tímabili í Dominos deildinni. Þá hefur Atli Aðalsteinsson endurnýjað samning sinn við Skallagrím og verður einnig með á næsta tímabili.

Davíð tók sér hlé frá körfunni síðasta vetur en lék síðast með liðinu í Dominos deildinni tímabilið 2016-2017 þar sem hann skoraði 3,5 stig og tók 2,1 frákast að meðaltali í leik. Atli var aftur á móti í liði Skallagríms í 1. deildinni á yfirstandandi tímabili þar sem hann skoraði 2,5 stig að meðaltali í leik og gaf 2,1 stoðsendingu.

Frekari tíðindi af leikmannamálum munu berast á næstu dögum.

Áfram Skallagrímur! Áfram Borgarnes!

Samningar endurnýjaðir við Eyjólf og Bjarna

Eyjólfur Ásberg Halldórsson og Bjarni Guðmann Jónsson hafa endurnýjað samninga sína við Skallagrím og munu leika með liðinu í næsta vetur í Dominos deildinni. Þeir félagar voru burðarásar í sigurliði Skallagríms í 1. deildinni á nýliðnu tímabili og er áframhaldandi vera þeir í liðinu því mikið fagnaðarefni.

Eyjólfur átti glæsilegt tímabil í 1. deildinni þar sem hann var með 18,2 stig, 10,3 fráköst og 7 stoðsendingar að meðaltali í leik. Hann var valinn leikmaður ársins í deildinni á verðlaunahófi KKÍ þar sem hann var einnig valinn í lið ársins. Þá var hann útnefndur leikmaður ársins í meistaraflokki á lokahófi Skallagríms. Næsta tímabil verður þriðja tímabil Eyjólfs í herbúðum Skallagríms en hann gekk í raðir liðsins árið 2016.

Bjarni Guðmann átti einnig gott tímabil í 1. deildinni. Hann skoraði 9,6 stig, tók 4,9 fráköst og gaf 2,3 stoðsendingar að meðaltali í leik. Bjarni var valinn í lið ársins í 1. deildinni á verðlaunahófi KKÍ og þá var hann útnefndur varnarmaður ársins á lokahófi Skallagríms. Bjarni er borinn og barnfæddur Borgnesingur og hefur spilað með Skallagrími upp yngri flokka og í meistaraflokk.

Geta má þess að Eyjólfur og Bjarni standa í stórræðum um þessar mundir en báðir eru í æfingahópi U20 ára landsliðs Íslands. U20 keppir í sterkri A-deild Evrópukeppni FIBA í Þýskalandi í júlí. Lokahópur liðsins verður tilkynntur í júní. Báðir hafa þeir verið í yngri landsliðum Íslands á síðastliðnum árum.

Frekari tíðindi af leikmannamálum eru væntanleg næstu daga.

Eyjólfur sækir að körfunni í leik gegn FSu í vetur. Mynd. Ómar Örn.

 

Bjarni Guðmann á vítalínunni. Mynd. Ómar Örn.

Björgvin og Bergþór í Skallagrím

Körfuknattleiksdeild Skallagríms hefur samið við bræðurna Björgvin og Bergþór Ríkharðssynir og munu þeir leika með liðinu í Dominos deildinni næsta vetur.

Björgvin kemur til Skallagríms frá Tindastóli þar sem hann hefur leikið tvö síðustu tímabil. Áður lék hann með ÍR og Fjölni. Björgvin lék mikilvægt hlutverk í liði Tindastóls í vetur sem varð bikarmeistari og hafnaði í 2. sæti í Íslandsmótinu. Með Stólunum skoraði hann 5 stig að meðaltali í leik og tók 2,9 fráköst. Björgvin verður 25 ára síðar á árinu en hann leikur stöðu bakvarðar.

Bergþór kemur að austan frá Hetti þar sem hann lék með liðinu á síðasta tímabili í Dominos deildinni. Bergþór var með 5,6 stig að meðaltali í leik ásamt því að taka 4,9 fráköst og gefa 2,5 stoðsendingar. Hann verður 21 árs í haust og leikur stöðu framherja.

Bræðurnir þekkja vel til hjá Skallagrími og í Borgarnesi en þeir bjuggu þar ásamt fjölskyldu sinni um árabil og æfðu körfubolta í yngri flokkum Skallagríms. Á unglingsárum fluttu þeir til Reykjavíkur þar sem þeir fóru að æfa með Fjölni. Það er því sérstakt ánægjuefni að fá þá aftur heim í Skallagrím.

Geta má þess að í Skallagrími hitta bræðurnir systur sína, Heiðrúnu Hörpu, sem leikur með meistaraflokki kvenna.

Fleiri tíðindi af leikmannamálum í meistaraflokki karla er að vænta á næstu dögum.

Áfram Skallagrímur! Áfram Borgarnes!

Björgvin Ríkharðsson handsala samninginn við Arnar Víði Jónsson formanns mfl. ráðs karla.

 

Bergþór Ríkharðsson handsalar samning sinn við Arnar Víði Jónsson formann mfl. ráðs karla.