Category: Fréttir

Davíð Guðmundsson aftur í gult og grænt

Körfuknattleiksdeild Skallagríms hefur samið við Davíð Guðmundsson um að leika með liðinu á næsta tímabili í 1. deildinni. Davíð kemur í Skallagrím úr Fjölni en þar átti hann þátt í því að koma liðinu aftur í efstu deild.

Davíð, sem leikur stöðu framherja, er uppalinn Skallagrímsmaður og lék með meistaraflokki í nokkur ár áður en hann fór í raðir Fjölnismanna. Hann er fæddur og uppalinn á Hvanneyri og er 25 ára gamall.

Ánægja er með að fá Davíð aftur í gult og grænt en samningur hans er til tveggja ára.

Áfram Skallagrímur!

Mynd: Davíð handsalar samninginn við Birgi Andrésson hjá meistaraflokksráði karla.

Kristófer snýr aftur í Skallagrím

Kristófer Gíslason er genginn aftur í raðir Skallagríms og mun leika með liðinu í 1. deildinni á næsta tímabili. Kristófer lék með Hamri frá Hveragerði í 1. deildinni frá síðustu áramótum eftir að hafa söðlað um úr Skallagrími og komst hann með Hvergerðingum í úrslitakeppni 1. deildar. Ánægja er með að fá Kristófer aftur í gult og grænt en hann er uppalinn Skallagrímsmaður og leikur stöðu bakvarðar. Samningur hans er til tveggja ára.

Fleiri tíðindi af leikmannamálum verða tilkynnt á næstu dögum.

Áfram Skallagrímur!

Mynd: Kristófer handsalar samninginn við Arnar Víði Jónsson hjá meistaraflokksráði karla.

Bjarni Guðmann og Gabríel Sindri valdir í lokahóp U20

Lokahópur U20 ára landsliðs karla var tilkynntur í dag og eru Bjarni Guðmann Jónsson og Gabríel Sindri Möller í lokahópnum. Eins og kunnugt er léku þeir stórt hlutverk í liði Skallagríms í Domino’s deildinni í vetur, Bjarni var með 12,8 stig að meðaltali í leik og Gabríel 5,7 stig. Þeir eru því vel að valinu komnir.

U20 ára landsliðið tekur þátt í B-deild Evrópukeppninnar dagana 12.-21. júlí í sumar sem fram fer í Matoshinos í Portúgal. Þjálfari liðsins er Ágúst Björgvinsson.

Við óskum Bjarna og Gabríel til hamingju með valið og góðs gengis í Portúgal í júlí!

Samið við Kristján og Almar

Körfuknattleiksdeild Skallagríms hefur endurnýjað samninga sína við þá Kristján Örn Ómarsson og Almar Örn Björnsson og munu þeir taka slaginn með Skallagrími í 1. deildinni næsta vetur. Báðir eru þeir uppaldir Skallagrímsmenn og hafa tekið góðum framförum á liðnum árum en þeir leika stöðu framherja. Samningar þeirra eru til tveggja ára og munu þeir styrkja meistaraflokk vel í baráttunni framundan.

Fleiri tíðindi eru væntanleg af leikmannamálum meistaraflokks karla á næstu dögum.

Áfram Skallagrímur!

Myndir: Almar og Kristján handsala samninga við Birgi Andrésson í meistaraflokksráði karla.

Atli sér um sumaræfingar meistaraflokks karla

Sumaræfingar meistaraflokks karla eru farnar á stað. Atli Aðalsteinsson heldur utan um æfingarnar sem fara fram þrisvar í viku eða á mánudögum, miðvikudögum og fimmtudögum kl. 18-20.

Ánægja er með að fá Atla til að stýra æfingunum í sumar en hann mun taka þátt í því uppbyggingarstarfi sem hafið er í meistaraflokki.

Áfram Skallagrímur!

Sigrún og Bjarni valin mikilvægust

Lokahóf meistaraflokka Skallagríms fór fram í félagsheimili hestamanna að Vindási í Borgarnesi á föstudaginn 24. maí sl.

Þar voru verðlaun veitt fyrir tímabilið. Mikilvægusu leikmenn voru valin þau Bjarni Guðmann Jónsson og Sigrún Sjöfn Ámundadóttir. Bjarni var með 12,1 stig, 5,4 fráköst og 2,1 stoðsendingu að meðaltali í leik í vetur og Sigrún Sjöfn með 10,8 stig, 7,4 fráköst og 3,4 stoðsendingar.

Varnarmenn ársins voru valin þau Maja Michalska og Björgvin Hafþór Ríkharðsson. Einnig voru veitt verðlaun fyrir mestu framfarir en þau hlutu Ragnar Magni Sigurjónsson og Árnína Lena Rúnarsdóttir.

Við óskum þessum leikmönnum okkar til hamingju með verðlaunin.

Að lokum gaf stjórn deildarinnar Bjarni Guðmann sérstaka Skallagríms treyju til að hafa með sér til Bandaríkjanna með slagorðinu “Get-Ætla-Skal”. Sem kunnugt hefur Bjarni háskólanám við Fort Hays State í Kansas næsta haust og mun leika með liði skólans í NCAA2 deildinni. Stjórn deildarinnar óskaði Bjarna velfarnaðar vestra og vonast til að treyjan nýtist honum sem gott pepp á nýjum slóðum.

Bjarni Guðmann með treyjuna góðu og verðlaunin sín.

Titilmynd: Frá vinstri Árnína, Maja, Sigrún, Ragnar og Björgvin, öll með verðlaunin sín.

Manuel Rodríguez er nýr þjálfari meistaraflokks karla

Körfuknattleiksdeild Skallagríms hefur ráðið Spánverjann Manuel A. Rodríguez sem næsta þjálfara meistaraflokks karla. Manuel er vel kunnugur í herbúðum Skallagríms því hann þjálfaði meistaraflokk kvenna í tvö tímabil á árunum 2015-2017 með góðum árangri þar sem hann stýrði liðinu upp í úrvalsdeild og leiddi það í bikarúrslit og úrslitakeppni.

Manuel mun einnig taka að sér þjálfun yngri flokka næsta vetur líkt og hann gerði þegar hann var síðast hjá félaginu.

Manuel er 39 ára gamall og reynslumikill þjálfari sem á að baki fjölbreyttan feril. Hann hefur stýrt félags- og skólaliðum í Svíþjóð og á Spáni og verið í þjálfarateymi yngri landsliða í heimalandi sínu.

Stjórn deildarinnar lýsir yfir ánægju sinni með komu Manuels en hann mun leiða uppbyggingarstarf í meistaraflokki karla á næstu árum. Samningur hans er til þriggja ára.

Við bjóðum Manuel velkomin á ný í Borgarnes!

Áfram Skallagrímur!

Lísbeth, Heiður og Ingibjörg valdar í Afreksbúðir KKÍ og Kristals

Borgfirðingarnir Lísbeth Inga Kristófersdóttir, Heiður Karlsdóttir og Ingibjörg Þórðardóttir hafa verið valdar í Afreksbúðir KKÍ og Kristals 2019 sem fram fara í Origo höllinni að Hlíðarenda í Reykjavík dagna 8.-9. júní nk. Það var yfirþjálfari stúlkna í búðunum, körfuboltastjarnan Helena Sverrisdóttir, sem valdi hópinn en alls voru 52 stúlkur valdar til æfinga að þessu sinni, allar fæddar árið 2005.

Afreksbúðirnar eru undanfari U15 ára landsliðs kvenna og því mikill heiður fyrir Lísbeth, Heiði og Ingibjörgu að vera valdar. Þær hafa leikið með sameiginlegu liði Reykdæla og Skallagríms í 8. flokki í vetur og tekið góðum framförum. Þá æfðu Lísbeth og Heiður með meistaraflokki Skallagríms í vetur.

Allar eru þær úr uppsveitum Borgarfjarðar, Lísbeth frá Litla-Bergi í Reykholtsdal, Ingibjörg frá Húsafelli og Heiður frá Laugarvöllum í Reykholtsdal.

Við óskum stelpunum til hamingju með valið og góðs gengis í afreksbúðunum í júní!

Mynd: Frá vinstri Ingibjörg, Lísbeth og Heiður (Ljósmyndari Guðjón Guðmundsson)

Góður vetur að baki hjá 8. flokki stelpna

Reykdælir og Skallagrímur sendu í haust sameiginlegt lið í 8.flokki stelpna til keppni á Íslandsmótinu. Stelpurnar hófu keppni í A-riðli í haust en þær höfðu unnið sér rétt til að spila þar með því að fara taplausar í gegn um Íslandsmótið í fyrra. Stelpurnar náðu að halda sæti sínu í A-riðli í allan vetur.

Á lokamótinu sem fram fór í Keflavík um síðustu helgi fóru leikar þannig að Keflavík sigraði og urðu þannig Íslandsmeistarar í þriðja skiptið í röð. En úrslitin á Íslandsmótinu urðu annars þannig.

1 sæti Keflavík 8 stig.

2. Sæti KR 4 stig.

3. Sæti Þór/Hrunamenn 4 stig

4. Sæti Reykdælir/Skallagrímur 4 stig.

5. Sæti Hamar/Selfoss 0 stig

Þess má geta að Skallagríms stelpurnar sem spiluðu með liðinu eru allar úr 7. Flokki og er þar með að spila upp fyrir sig með þessu sameiginlega liði.

Þjálfarar liðsins eru þau Guðjón Guðmundsson frá Reykdælum og Sigrún Sjöfn Ámundadóttir frá Skallagrími

Frábær árangur hjá stelpunum sem gefur góð fyrirheit fyrir framtíðina hjá þeim á körfuboltavellinum!

Góð frammistaða hjá minnibolta stelpna í lokaumferðinni

Um síðustu helgi fóru fóru stelpurnar í minnibolta 10 ára og kepptu á lokamótinu á Íslandsmótinu í þeim aldursflokki.

Skallagrímur sendi tvö lið til leiks að þessu sinni en A-liðið keppti í A-riðli á meðan að B-liðið keppti í D-riðli.

Mótherjar A-liðsins að þessu sinni voru Ármann, Grindavík, Keflavík, KR og Þór Akureyri. Fyrirfram var veik von um að tækist að landa Íslandsmeistaratitlinum en þá hefðum við þurft að vinna alla okkar leiki og treysta á úrslit úr öðrum leikjum. Annað af þessu gerðist. Á laugardeginum byrjuðum við á því að spila á móti KR en sá leikur endaði 16-18 fyrir KR en sigurkarfa þeirra kom þegar 6 sekúndur voru eftir af leiknum. Næsta verkefni stelpnana var leikur gegn Grindavík en þar hafðist 18-14 sigur. Síðasti leikur laugardagsins var gegn liði Þórs Akureyri en endaði sá leikur með 6 stiga tapi 18-24 í framlengdum leik. Á sunnudeginum áttum við 2 leiki og byrjuðum gegn Keflavík en við töpuðum þeim leik 14-16 en Keflavík skoraði sigurkörfuna frá miðju þegar um 3 sekúndur voru eftir! Í síðasta leiknum spiluðum við svo við Ármann en þar hafðist sigur 29-10 í mjög vel spiluðum leik hjá okkar stelpum.

Mótherjar B-liðsins að þessu sinni voru Afturelding, Haukar c, Haukar d og Stjarnan c. Á laugardeginum spiluðu stelpurnar við Aftureldingu þar sem þær töpuðu 16-18 eftir hetjulega baráttu þar sem úrslitin réðust ekki fyrr en í lokin. Síðan var seinni leikurinn á laugardeginum gegn gestgjöfunum í Haukum c þar sem stelpurnar þurftu að játa sig sigraðar 20-32. Á sunnudeginum spiluðu þær síðan við d lið Hauka og hafðist sigur í þeim leik 18-12 í frábærlega spiluðum leik. Síðasti leikur helgarinnar var síðan spilaður við c lið Stjörnunar og þar hafðist sigur 10-6. Afrakstur helgarinnar því 2 sigrar og 2 töp og 3. Sætið í riðlinum raunin.

Það er ljóst að það er ekki langt á milli bestu liða í þessum aldursflokki og er mikilvægt að halda vel á spilunum á næstu árum. Framfarirnar í þessum hópi hafa verið stórkostlegar núna á þessu ári hjá öllum stelpunum. Þjálfari minnibolta 10 ára stelpna er Rúnar Ólason.