Category: Fréttir

Liðakynning meistaraflokka Skallagríms

Annað kvöld, laugardagskvöld, verður liðakynning á Dominosdeildar liðunum okkar en hún fer fram í Englendingarvík í Borgarnesi. Þar munu leikmenn og þjálfarar kynna sig einn af öðrum og segja aðeins frá sér.

Liðakynningin hefst kl. 21:00.

Þegar því er lokið geta áhangendur spjallað við leikmenn og haft gaman.

Við hvetjum alla stuðningsmenn til að mæta og fá sér smá hressingu og kynnast liðunum sínum fyrir átökin í vetur!

Sjá nánar í viðburð liðakynningarinnar á Facebook: https://www.facebook.com/events/932636773591503/?ti=ia

Áfram Skallagrímur!

Sala árskorta 2018-2019 að hefjast

Nú fer óðum að styttast í nýtt tímabil í körfunni. Spennan magnast!

Hér að neðan er að finna verð á árskortum á komandi tímabili. Vekjum sérstaka athygli á hærra verði inn á staka leiki, 2.000 kr. og því enn hagstæðara en ella að kaupa árskort. Prósentutalan hér að neðan sýnir afslátt miðað við fullt verð við kaup á viðkomandi korti.

ATH – Nýbreytni! Nú getur fólk keypt sér sitt eigið sæti á áhorfendabekkjunum sem yrði merkt því og það ætti forgang í meðan á leik stendur.

Verð:

Fjölskyldukort á alla leiki karla og kvenna- 35.000 (65%)
Fjölskyldukort á alla leiki karlaliðs-22.500 (49%)
Fjölskyldukort á alla leiki kvennaliðs-22.500 (60%)
Árskort fyrir einstakling á alla leiki karla og kvenna-25.000 (50%)
Árskort fyrir einstakling á alla leiki karlaliðs-15.000 (32%)
Árskort fyrir einstakling á alla leiki kvennaliðs-15.000 (46%)
Frátekið sæti-20.000

Fríðindi fyrir árskorthafa: Hamborgarinn fyrir leiki á 1.000 kr. (þegar við grillum). Aldrei að vita nema það bætist við fríðindin, tilkynnum það þá þegar þar að kemur.

Hefjum sölu árskorta á æfingaleik karlaliðs Skallagríms og Hattar sem fram fer í Borgarnesi á morgun sunnudag kl. 13.

Áfram Skallagrímur!

Tímamótasamkomulag um jafna skiptingu styrktarsamninga

Aðalstjórn körfuknattleiksdeildar Skallagríms ásamt meistaraflokksráðum karla og kvenna og yngri flokka ráði hafa undirritað samkomulag þess efnis að jöfn skipting verði á öllum styrktar- og samstarfssamningum sem deildin aflar hverju sinni.

Með þessu er tryggt jafnræði milli karla og kvennaliða Skallagríms sem og yngri flokka þegar kemur að úthlutun þess fjármagns sem aflað er frá styrktaraðilum.

Samkomulagið er í samræmi við ákvæði jafnréttisstefnu UMSB og áherslum Íþróttasambands Íslands í jafnréttismálum.

Um tímamótasamkomulag er að ræða því eftir því sem best er vitað er körfuknattleiksdeild Skallagríms með fyrstu íþróttafélögunum sem stígur þetta skref innan körfuknattleikshreyfingarinnar á Íslandi.

Aðalstjórn lýsir yfir mikilli ánægju með samkomulagið og skorar á önnur félög að huga vel að jafnréttismálum innan sinnan raða.

Leikstjórnandinn Ivan Mikulic í Skallagrím

Skallagrímur hefur samið við króatíska leikstjórnandann Ivan Mikulic um að leika með liðinu í Dominos deildinni í vetur. Mikulic er 27 ára gamall og kemur í Borgarnes frá rúmenska úrvalsdeildarliðinu SCM U Craiova þar sem hann var með 11,7 stig, 4 fráköst og 4 stoðsendingar að meðaltali í leik á síðustu leiktíð.

Mikulic hefur leikið með liðum víða um Evrópu við góðan orðstír á ferlinum, m.a. í heimalandinu Króatíu, Slóveníu og Tékklandi. Hann á einnig leiki með yngri landsliðum Króatíu.

Von er á Mikulic til landsins á fimmtudagskvöldið og mun hann þreyta frumraun sína í gulu og grænu þegar Skallagrímur mætir Hetti frá Egilsstöðum í æfingaleik í Borgarnesi næst komandi sunnnudag.

Sjá má myndband með tilþrifum Mikulic með Craiova á síðustu leiktíð hér.

Við bjóðum Mikulic velkominn í Skallagrím!

Matej Buovac í Skallagrím

Skallagrímur hefur samið við framherjann Matej Buovac um að leika með liðinu í Dominos deildinni á næsta tímabili. Matej er 25 ára gamall og er frá Króatíu en hann er 2,01 m á hæð.

Matej leikur stöðu framherja en getur þó brugðið sér í allar stöður á vellinum. Hann lék með KK Zagreb í Króatísku úrvalsdeildinni í fyrra þar sem hann var með 10,7 stig að meðaltali í leik. Áður lék hann í NCCA D1 háskólaboltanum í Bandaríkjunum, fyrst með New Mexico State og síðar með Sacred Heart University. Á útskriftartímabili sínu með Sacred Heart var hann með 9 stig að meðaltali í leik.

Þá á Matej að baki landsleiki með U18 og U20 ára landsliðum Króatíu.

Við bjóðum Matej velkominn í Borgarnes!

Mynd: Matej í leik með KK Zagreb síðasta vetur. Ljósmynd/KK Zagreb.hr

Leikjaplan næsta tímabils liggur fyrir

KKÍ hefur dregið í töfluröð í Dominos deildum karla og kvenna fyrir næsta keppnistímabil og liggja því leikdagar fyrir.

Meistaraflokkur kvenna hefur leik miðvikudaginn 3. október og keppir gegn liði Vals á útivelli á meðan meistaraflokkur karla heimsækir Íslandsmeistaranna í KR í Vesturbænum fimmtudaginn 4. október.

Fyrstu heimaleikirnir eru síðan viku síðar þegar meistaraflokkur kvenna mætir Breiðabliki miðvikudaginn 10. október og meistaraflokkur karla mætir Grindavík fimmtudaginn 11. október.

Leikjaplan meistaraflokks karla 2018-2019.

Leikjaplan meistaraflokks kvenna 208-2019.

Bjarni, Eyjólfur og Bríet valin í lokahópa U20

Þrír Skallagrímsmenn hafa verið valdir í lokahópa U20 ára landsliða Íslands. Þetta eru Bjarni Guðmann Jónsson og Eyjólfur Ásberg Halldórsson í U20 karla og Bríet Lilja Sigurðardóttir í U20 kvenna.

U20 karla keppir í A-deild Evrópumótsins og fer keppnin fram í borginni Chemnitz í Þýskalandi 14. til 22. júlí. U20 kvenna keppir aftur á móti í B-deild Evrópumótsins sem verður haldin í borginni Oradea í Rúmeníu 7. til 15. júlí.

Þjálfarateymi mfl. karla stýrir U20 ára landsliði kvenna, þeir Finnur Jónsson aðalþjálfari og Hörður Unnsteinsson aðstoðarþjálfari. Þjálfari U20 karla er Israel Martin en honum til aðstoðar er Baldur Þór Ragnarsson

Geta má þess að í vor var Marínó Þór Pálmason valin í lokahóp U16 sem keppir á Norðurlandamótinu síðar í þessum mánuði.

Við óskum okkar fólki góðs gengis fyrir Íslands hönd í sumar!