Category: Yngriflokkar

112 krakkar í körfuboltabúðum Arion banka og Skallagríms

Körfuboltabúðir Skallagríms og Arion Banka voru haldnar með pompi og prakt í Borgarnesi um síðustu helgi. Þar mættu 112 sprækir körfuboltakrakkar af öllu Vesturlandi og léku listir sínar undir stífri leiðsögn þjálfara og leikmanna meistaraflokka Skallagríms.

Gestaþjálfarar búðanna, Ólöf Helga Pálsdóttir og Finnur Freyr Stefánsson, slógu einnig í gegn hjá krökkunum og eru þeim kunnar bestu þakkir fyrir komuna.

Auk körfuboltaæfinga var krökkum í 5-10. bekk boðið upp á fyrirlestur frá Bergsveini Ólafssyni knattspyrnumanni þar sem hann leiðbeindi krökkunum á praktískan hátt um markmiðasetningu hvort heldur sem það sé í tómstundum eða skóla.

Við vonum að allir krakkarnir hafi fengið hvatningu til að halda áfram að æfa sig eftir helgina og yfirgefið húsið með bros á vör.

Gunnhildur Lind Hansdóttir ljósmyndari tók myndir frá búðunum sem skoða má hér að neðan. Þar sést körfuboltafólk framtíðarinnar leika listir sínar.

Tímamótasamkomulag um jafna skiptingu styrktarsamninga

Aðalstjórn körfuknattleiksdeildar Skallagríms ásamt meistaraflokksráðum karla og kvenna og yngri flokka ráði hafa undirritað samkomulag þess efnis að jöfn skipting verði á öllum styrktar- og samstarfssamningum sem deildin aflar hverju sinni.

Með þessu er tryggt jafnræði milli karla og kvennaliða Skallagríms sem og yngri flokka þegar kemur að úthlutun þess fjármagns sem aflað er frá styrktaraðilum.

Samkomulagið er í samræmi við ákvæði jafnréttisstefnu UMSB og áherslum Íþróttasambands Íslands í jafnréttismálum.

Um tímamótasamkomulag er að ræða því eftir því sem best er vitað er körfuknattleiksdeild Skallagríms með fyrstu íþróttafélögunum sem stígur þetta skref innan körfuknattleikshreyfingarinnar á Íslandi.

Aðalstjórn lýsir yfir mikilli ánægju með samkomulagið og skorar á önnur félög að huga vel að jafnréttismálum innan sinnan raða.

Bjarni, Eyjólfur og Bríet valin í lokahópa U20

Þrír Skallagrímsmenn hafa verið valdir í lokahópa U20 ára landsliða Íslands. Þetta eru Bjarni Guðmann Jónsson og Eyjólfur Ásberg Halldórsson í U20 karla og Bríet Lilja Sigurðardóttir í U20 kvenna.

U20 karla keppir í A-deild Evrópumótsins og fer keppnin fram í borginni Chemnitz í Þýskalandi 14. til 22. júlí. U20 kvenna keppir aftur á móti í B-deild Evrópumótsins sem verður haldin í borginni Oradea í Rúmeníu 7. til 15. júlí.

Þjálfarateymi mfl. karla stýrir U20 ára landsliði kvenna, þeir Finnur Jónsson aðalþjálfari og Hörður Unnsteinsson aðstoðarþjálfari. Þjálfari U20 karla er Israel Martin en honum til aðstoðar er Baldur Þór Ragnarsson

Geta má þess að í vor var Marínó Þór Pálmason valin í lokahóp U16 sem keppir á Norðurlandamótinu síðar í þessum mánuði.

Við óskum okkar fólki góðs gengis fyrir Íslands hönd í sumar!

Finnur áfram með meistaraflokk karla – Hörður verður aðstoðarþjálfari

Körfuknattleiksdeild Skallagríms hefur endurnýjað samning sinn við Finn Jónsson um áframhaldandi þjálfun meistaraflokks karla. Finnur hefur verið við stjórnvölinn í meistaraflokki frá ársbyrjun 2014 og leiddi liðið til góðs sigurs í 1. deild karla í vetur sem tryggði því sæti í Dominos deildinni næsta tímabil. Finnur, sem er Borgnesingur í húð og hár, var áður leikmaður meistaraflokks Skallagríms og hefur þjálfað frá því að hann lagði skónna á hilluna, m.a. kvennalið Skallagríms og KR. Þá hefur hann þjálfað yngri landslið Íslands og er í dag þjálfari U20 ára landsliðs kvenna. Auk þess að þjálfa meistaraflokk mun Finnur taka við þjálfun unglingaflokks karla.

Finnur Jónsson, aðalþjálfari mfl. karla.

Körfuknattleiksdeildin hefur einnig ráðið Hörð Unnsteinsson sem aðstoðarþjálfara Finns í meistaraflokki karla. Hörður er borinn og barnfæddur Borgnesingur og snýr því aftur heim í Borgarnes en hann var fyrir daga sína í þjálfun leikmaður meistaraflokks Skallagríms. Hann hefur undanfarin ár þjálfað yngri flokka hjá Sandvika Baskettballklubb í Ósló í Noregi með góðum árangri, en þar áður þjálfaði hann yngri flokka hjá Breiðabliki. Hörður var aðstoðarþjálfari Finns hjá úrvalsdeildarliði KR í Dominos deild kvenna tímabilið 2013-2014 og tók við sem þjálfari eftir að Finnur tók við karlaliði Skallagríms á miðju tímabili. Í dag er Hörður aðstoðarþjálfari Finns í U20 ára landsliði kvenna.

Körfuknattleiksdeild Skallagríms lýsir yfir ánægju með þessar ráðningar sem er fyrsti áfangi í undirbúningnum fyrir komandi tímabil í Dominos deildinni.

Hörður Unnsteinsson, nýr aðstoðarþjálfari mfl. karla.

Körfuboltabúðir

Körfuboltabúðir Skallagríms og Arion banka hófust í dag og standa yfir helgina. Tæplega 90 krakkar úr Borgarnesi, Hvanneyri, Skorradal, Akranesi, Grundarfirði, Stykkishólmi, Garðabæ og úr Reykholtsdal taka þátt í búðunum. Við erum virkilega ánægð með þáttukuna í þessum fyrstu æfingarbúðum sem við höldum í samvinnu með Arion banka í Borgarnesi.