Category: Yngriflokkar

Sumaræfingar kkd. Skallagríms 2020

Körfuknattleiksdeild Skallagríms í samvinnu við B59 Hotel í Borgarnesi bjóða uppá æfingar fyrir krakka fædda 2003 – 2011 í allt sumar þar sem lögð verður áhersla á einstaklingsmiðaðar æfingar, tækni og grunnatriði svo sem fótavinnu, boltatækni, skottækni ásamt fleiru.

Æfingar eru samkvæmt meðfylgjandi töflu en í viku 25 og 33 verða örlítið breyttir æfingatímar þar sem sumarfjörið verður á sama tíma.
Ein vika kostar 3000 kr.- en boðið er uppá afslátt eftir því sem keyptar eru fleiri vikur og fer skráningin fram í gegnum Nóra kerfið https://umsb.felog.is/default.aspx

Umsjónarmaður sumarsins verður Marinó Þór Pálmason en margir þjálfara munu koma að þessu með honum. Fransico García verður þrjár vikur í júní áður en hann heldur til annarra starfa. Seinni part sumarsins munu fleiri góðir þjálfarar ásamt leikmönnum meistaraflokks aðstoða við þjálfunina. Má nefna Bjarna Guðmann Jónsson leikmann Fort Hays Bandaríkjunum, Nebosja Knezeviz leikmann mflk. KK, Pálmi Þór Sævarsson og  Sigrún Sjöfn Ámundadóttir leikmaður mflk. kvk ofl.

Tímasetningar

Æfingar verða sem hér segir mánudag- fimmtudaga nema í viku 25 og 33 vegna sumarfjörs.

2009 – 2011 strákar og stelpur  
kl: 09:00 – 10:30
2008 – 2006  strákar og stelpur
kl: 10:30 – 12:00   ( 12:00 – 13:30 í vikum 25 og 33 )
2005 – 2003  strákar og stelpur
Mánudaga og Miðvikudaga. kl 17:00 – 18:30
Þriðjudagar og fimmtudagar kl: 18:00 – 19:30 

*ATH Krakkar fæddir 03-08 hafa val um að færa sig milli hópa ef það gengur betur uppá æfingatíma að gera vegna sumarvinnu.

Skotæfingar 07:00 – 08:00 þriðjudaga og fimmtudaga sömu vikur er innifalið ásamt því að möguleiki er að fá einstaklings tíma á föstudögum í samráði við þjálfara.

Dagskrá

Vika 24 Mánudag – Fimmtudag  8. – 11. Júní
Vika 25 Mánudag – Föstudag  15-19. Júní – SUMARFJÖR  ( 17. JÚNÍ miðvikudegi)
Vika 26 Mánudag – Fimmtudag   22 – 25. Júní
Vika 27 – FRÍ 29. Júní – 3. Júlí
Vika 28 Mánudag – Fimmtudag  6 – 9. Júlí
Vika 29 Mánudag – Fimmtudag 13 – 16. Júlí
Vika 30 Mánudag – Fimmtudag 20 – 23. Júlí
Vika 31 – FRÍ  27 – 31. Júlí 
Vika 32 – Frí   3 – 7. Ágús

Vika 33 – Mánudag – Fimmtudag  – SUMARFJÖR 10 – 13. Ágúst
Vika 34 – Mánudag – Fimmtudag  17 – 20. Ágúst

Gjaldskrá 1 – 8 vikur*

1 vika  3.000 kr.
2  vikur 6.000 kr.
3 vikur  7.500 kr
4 vikur  10.000 kr
5 vikur  12.500 kr
6 vikur  15.000 kr
7 vikur  16.000 kr
8 vikur  18.000 kr

*Hægt er að kaupa t.d 4 vikur og nýta þær hvenær sem er yfir sumarið. Greitt fyrir vikur

 

Sumaræfingar kkd. Skallagríms 2020: æfingatímar hópa
Sumaræfingar kkd. Skallagríms 2020: æfingatímar í viku 25 15.-19. júní
Sumaræfingar kkd. Skallagríms 2020: æfingatímar í viku 33 10.-14. ágúst

Íslandsmótið hafið hjá 7. flokki stúlkna

Stelpurnar okkar í 7. flokki kepptu í C-riðli í 1. umferð Íslandsmótsins um liðna helgi sem fram fór í Fjósinu í Borgarnesi. Mætt voru lið frá Haukum, Val og Þór Akureyri.

Þurftu Skallastelpur að sætta sig við tap gegn Þór Ak. í gær en snéru síðan blaðinu við og unnu seinni leikina gegn Haukum og Val.

Áfram Skallagrímur!

Bjarni Guðmann og Gabríel Sindri valdir í lokahóp U20

Lokahópur U20 ára landsliðs karla var tilkynntur í dag og eru Bjarni Guðmann Jónsson og Gabríel Sindri Möller í lokahópnum. Eins og kunnugt er léku þeir stórt hlutverk í liði Skallagríms í Domino’s deildinni í vetur, Bjarni var með 12,8 stig að meðaltali í leik og Gabríel 5,7 stig. Þeir eru því vel að valinu komnir.

U20 ára landsliðið tekur þátt í B-deild Evrópukeppninnar dagana 12.-21. júlí í sumar sem fram fer í Matoshinos í Portúgal. Þjálfari liðsins er Ágúst Björgvinsson.

Við óskum Bjarna og Gabríel til hamingju með valið og góðs gengis í Portúgal í júlí!

Manuel Rodríguez er nýr þjálfari meistaraflokks karla

Körfuknattleiksdeild Skallagríms hefur ráðið Spánverjann Manuel A. Rodríguez sem næsta þjálfara meistaraflokks karla. Manuel er vel kunnugur í herbúðum Skallagríms því hann þjálfaði meistaraflokk kvenna í tvö tímabil á árunum 2015-2017 með góðum árangri þar sem hann stýrði liðinu upp í úrvalsdeild og leiddi það í bikarúrslit og úrslitakeppni.

Manuel mun einnig taka að sér þjálfun yngri flokka næsta vetur líkt og hann gerði þegar hann var síðast hjá félaginu.

Manuel er 39 ára gamall og reynslumikill þjálfari sem á að baki fjölbreyttan feril. Hann hefur stýrt félags- og skólaliðum í Svíþjóð og á Spáni og verið í þjálfarateymi yngri landsliða í heimalandi sínu.

Stjórn deildarinnar lýsir yfir ánægju sinni með komu Manuels en hann mun leiða uppbyggingarstarf í meistaraflokki karla á næstu árum. Samningur hans er til þriggja ára.

Við bjóðum Manuel velkomin á ný í Borgarnes!

Áfram Skallagrímur!

Lísbeth, Heiður og Ingibjörg valdar í Afreksbúðir KKÍ og Kristals

Borgfirðingarnir Lísbeth Inga Kristófersdóttir, Heiður Karlsdóttir og Ingibjörg Þórðardóttir hafa verið valdar í Afreksbúðir KKÍ og Kristals 2019 sem fram fara í Origo höllinni að Hlíðarenda í Reykjavík dagna 8.-9. júní nk. Það var yfirþjálfari stúlkna í búðunum, körfuboltastjarnan Helena Sverrisdóttir, sem valdi hópinn en alls voru 52 stúlkur valdar til æfinga að þessu sinni, allar fæddar árið 2005.

Afreksbúðirnar eru undanfari U15 ára landsliðs kvenna og því mikill heiður fyrir Lísbeth, Heiði og Ingibjörgu að vera valdar. Þær hafa leikið með sameiginlegu liði Reykdæla og Skallagríms í 8. flokki í vetur og tekið góðum framförum. Þá æfðu Lísbeth og Heiður með meistaraflokki Skallagríms í vetur.

Allar eru þær úr uppsveitum Borgarfjarðar, Lísbeth frá Litla-Bergi í Reykholtsdal, Ingibjörg frá Húsafelli og Heiður frá Laugarvöllum í Reykholtsdal.

Við óskum stelpunum til hamingju með valið og góðs gengis í afreksbúðunum í júní!

Mynd: Frá vinstri Ingibjörg, Lísbeth og Heiður (Ljósmyndari Guðjón Guðmundsson)

Góð frammistaða hjá minnibolta stelpna í lokaumferðinni

Um síðustu helgi fóru fóru stelpurnar í minnibolta 10 ára og kepptu á lokamótinu á Íslandsmótinu í þeim aldursflokki.

Skallagrímur sendi tvö lið til leiks að þessu sinni en A-liðið keppti í A-riðli á meðan að B-liðið keppti í D-riðli.

Mótherjar A-liðsins að þessu sinni voru Ármann, Grindavík, Keflavík, KR og Þór Akureyri. Fyrirfram var veik von um að tækist að landa Íslandsmeistaratitlinum en þá hefðum við þurft að vinna alla okkar leiki og treysta á úrslit úr öðrum leikjum. Annað af þessu gerðist. Á laugardeginum byrjuðum við á því að spila á móti KR en sá leikur endaði 16-18 fyrir KR en sigurkarfa þeirra kom þegar 6 sekúndur voru eftir af leiknum. Næsta verkefni stelpnana var leikur gegn Grindavík en þar hafðist 18-14 sigur. Síðasti leikur laugardagsins var gegn liði Þórs Akureyri en endaði sá leikur með 6 stiga tapi 18-24 í framlengdum leik. Á sunnudeginum áttum við 2 leiki og byrjuðum gegn Keflavík en við töpuðum þeim leik 14-16 en Keflavík skoraði sigurkörfuna frá miðju þegar um 3 sekúndur voru eftir! Í síðasta leiknum spiluðum við svo við Ármann en þar hafðist sigur 29-10 í mjög vel spiluðum leik hjá okkar stelpum.

Mótherjar B-liðsins að þessu sinni voru Afturelding, Haukar c, Haukar d og Stjarnan c. Á laugardeginum spiluðu stelpurnar við Aftureldingu þar sem þær töpuðu 16-18 eftir hetjulega baráttu þar sem úrslitin réðust ekki fyrr en í lokin. Síðan var seinni leikurinn á laugardeginum gegn gestgjöfunum í Haukum c þar sem stelpurnar þurftu að játa sig sigraðar 20-32. Á sunnudeginum spiluðu þær síðan við d lið Hauka og hafðist sigur í þeim leik 18-12 í frábærlega spiluðum leik. Síðasti leikur helgarinnar var síðan spilaður við c lið Stjörnunar og þar hafðist sigur 10-6. Afrakstur helgarinnar því 2 sigrar og 2 töp og 3. Sætið í riðlinum raunin.

Það er ljóst að það er ekki langt á milli bestu liða í þessum aldursflokki og er mikilvægt að halda vel á spilunum á næstu árum. Framfarirnar í þessum hópi hafa verið stórkostlegar núna á þessu ári hjá öllum stelpunum. Þjálfari minnibolta 10 ára stelpna er Rúnar Ólason.

Almar valinn í Úrvalsbúðir KKÍ & Kristals

Skallagrímsmaðurinn Almar Orri Kristinsson hefur verið valinn í Afreksbúðir KKÍ & Kristals 2019. Í búðunum koma saman 54 strákar, fæddir árið 2005, sem hafa verið valdir af yfirþjálfara búðanna, Snorra Erni Arnaldssyni. Afreksbúðirnar eru undanfari að U15 ára landsliði Íslands og því mikill heiður fyrir Almar að vera valinn. Búðirnar fara fram 8. – 9. júní nk. í Origo-höllinni að Hlíðarenda í Reykjavík.

Almar hefur leikið í vetur með 9. – 10. flokki drengja hjá Skallagrími og tekið góðum framförum. Einnig hefur hann leikið með sameiginlegu liði Snæfell/Skallagrímur í 8 flokki í vetur.

Við óskum Almari til hamingju með valið og góðs gengis í afreksbúðunum í júní!

Aðalfundur 2019: Ný stjórn kjörin

Aðalfundur körfuknattleiksdeildar Umf. Skallagríms fór fram sl. mánudag í Hjálmakletti í Borgarnesi. Þar var ný stjórn deildarinnar kjörin en hana skipa:

Margrét Gísladóttir, formaður

Arnar Víðir Jónsson – tilnefndur af meistarflokksráði karla

Birgir Andrésson – tilnefndur af meistaraflokksráði karla

Guðmundur Smári Valsson – tilnefndur af meistaraflokksráði kvenna

Þórhildur María Kristinsdóttir – tilnefnd af meistaraflokksráði kvenna

Einar Árni Pálsson – tilnefndur af yngriflokkaráði

Kristinn Óskar Sigmundsson – tilnefndur af yngriflokkaráði

AÐALFUNDUR KÖRFUKNATTLEIKSDEILDAR 2019

Aðalfundur körfuknattleiksdeildar Umf. Skallagríms verður haldinn mánudaginn 6. maí nk. kl. 20:00 í Hjálmakletti, Borgarbraut 54 í Borgarnesi.

Dagskrá samkvæmt lögum aðalstjórnar Skallagríms:

1.     Formaður setur fundinn

2.     Kosinn fundarstjóri

3.     Kosinn fundarritari

4.     Fundargerð síðasta aðalfundar lögð fram til samþykktar

5.     Formaður gefur skýrslu um starfsemi á liðnu starfsári

6.     Gjaldkeri leggur fram og útskýrir áritaða reikninga deildarinnar sem síðan eru bornir undir atkvæði.

7.     Stjórnarkjör

8.     Önnur mál

 

Allir velkomnir!

Stjórnin

112 krakkar í körfuboltabúðum Arion banka og Skallagríms

Körfuboltabúðir Skallagríms og Arion Banka voru haldnar með pompi og prakt í Borgarnesi um síðustu helgi. Þar mættu 112 sprækir körfuboltakrakkar af öllu Vesturlandi og léku listir sínar undir stífri leiðsögn þjálfara og leikmanna meistaraflokka Skallagríms.

Gestaþjálfarar búðanna, Ólöf Helga Pálsdóttir og Finnur Freyr Stefánsson, slógu einnig í gegn hjá krökkunum og eru þeim kunnar bestu þakkir fyrir komuna.

Auk körfuboltaæfinga var krökkum í 5-10. bekk boðið upp á fyrirlestur frá Bergsveini Ólafssyni knattspyrnumanni þar sem hann leiðbeindi krökkunum á praktískan hátt um markmiðasetningu hvort heldur sem það sé í tómstundum eða skóla.

Við vonum að allir krakkarnir hafi fengið hvatningu til að halda áfram að æfa sig eftir helgina og yfirgefið húsið með bros á vör.

Gunnhildur Lind Hansdóttir ljósmyndari tók myndir frá búðunum sem skoða má hér að neðan. Þar sést körfuboltafólk framtíðarinnar leika listir sínar.